Lífið

Hjálmar hefur töluvert að gera í samkomubanni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjálmar Örn hefur fengið fjölmörg verkefni í samkomubanninu.
Hjálmar Örn hefur fengið fjölmörg verkefni í samkomubanninu.

„Ég verð að vera hreinskilinn, það er búið að vera fínt að gera hjá mér,“ segir skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson í viðtali í Brennslunni á FM957 í gær. Hann hefur fengið allskyns fjargigg eftir að samkomubannið skall á.

„Um leið og þetta skall á og um leið og allt stoppaði, öll giggin og árshátíðirnar þá hafði fyrirtæki strax samband við mig og spurði hvort hvítvínskonan gæti sent peppkveðju á starfsfólkið og ég var bara þvílíkt þakklátur. Svo rétt á eftir var bókað fjarquiz og svo er þetta bara búið að vinda upp á sig og það er bara búið að vera fínt að gera ef ég á að segja alveg eins og er.“

Hann segir að verkefnunum hafi vissulega fækkað en samt sem áður hefur hann eitthvað að gera.

„Ég er mikill sjónvarpsmaður og mér finnst gott að liggja í sófanum og horfa á sjónvarp. Nú er konan að vinna heima og börnin líka heima svo það er mjög lítið að gera fyrir mig annað en að sinna börnunum og vera góður við konuna.“

Í kvöld mun Hjálmar Örn sjá um Bingó á Facebook í beinni útsendingu eins og hann hefur einu sinni áður gert.

„Það er hægt að finna allt um þetta á Ali-Bingó 2 á Facebook en það horfðu 50 þúsund manns síðast á þetta. Þegar mest var voru sjö þúsund manns að horfa í einu í beinni útsendingu.“

Hjálmar var tekinn í yfirheyrslu og þar komu fram nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Hjamma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×