Innlent

Læknir segir það kraftaverk að drengirnir séu komnir heim eftir svo stuttan tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Hafnarfjarðarhöfn þegar verið var að hífa bílinn upp.
Frá Hafnarfjarðarhöfn þegar verið var að hífa bílinn upp. Vefmyndavél Hafnarfjarðarhafnar

Felix Valsson, læknirinn sem sá um kælimeðferð tveggja drengja sem voru í hjartastoppi í tvo tíma eftir að hafa verið í bíl sem endað í sjónum í Hafnarfjarðarhöfn, segir málið vera einstakt og jafnvel kraftaverk. Hann segir það hafa verið ótrúlegt þegar drengirnir vöknuðu.

Þrír drengir voru í bílnum þegar hann fór í höfnina við Óseyrarbryggju að kvöldi 17. janúar. Tveir fæddir 2002 og einn fæddur 2004. Einn komst sjálfur upp en hinum tveimur var bjargað og voru allir þrír fluttir á slysadeild.

Drengirnir tveir, þeir Kristján Hrafn Ágústsson, fimmtán ára, og Helgi Valur Ingólfsson, sautján ára, voru í sjónum í um 30 mínútur áður en kafarar náðu þeim upp. Þeir voru í hjartastoppi í tvo tíma.

Í samtali við Ríkisútvarpið segir Felix að vitað sé að kuldi verndi heilann fyrir súrefnisskorti og því var sérstakri kælimeðferð beitt til að koma í veg fyrir skaða. Drengjunum var haldið við 32 gráður í tvo sólarhringa og hitastig þeirra hækkað hægt og rólega.

Sjá einnig: Kælimeðferð lykillinn að kraftaverkinu í Hafnarfjarðarhöfn

Eftir það voru drengirnir settir í öndunarvélar á gjörgæslu. Kristján Hrafn komst úr öndunarvél eftir nokkra daga en Helgi Valur eftir nokkrar vikur. Felix sagði í fréttum RÚV að það hefði verið ótrúlegt þegar drengirnir vöknuðu.

„Sérstaklega því ef maður er hreinskilinn, þetta leit ekki vel út í byrjun. Þetta var langur tími, löng endurlífgun og blóðprufur sem við tökum töluðu ekki vel fyrir þeim. Þeir voru orðnir mjög súrir, maður mælir sýrustigið á líkamanum, og sérstaklega annar var með sýrustig sem ég hef hreinlega aldrei séð neinn lifa af,“ segir Felix.

Þessi tvö tilfelli séu að mörgu leiti ekki sambærileg öðrum tilfellum þar sem þessari meðferð hefur verið beitt. Það helsta sé að það að áður hafi hjara viðkomandi verið byrjað að slá löngu áður en sá var settur á hjarta- og lungnavél. Þarna hafi drengirnir verið í hjartastoppi allan tímann þar til þeir voru settir á vélina.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×