Tvær frelsissviptingar komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Annars vegar tilkynnti maður um frelsissviptingu/rán klukkan 17 og hins vegar tilkynnti ungur maður um líkamsárás í Heiðmörk um hálftíma síðar.
Að því er segir í dagbók lögreglu var maðurinn að aka í Borgartúni þegar tvær manneskju settust inn í bíl hans, kona í framsæti og maður í aftursæti.
Mun maðurinn í aftursætinu hafa tekið upp eggvopn og hótað manninum. Konan fór síðan úr bílnum og var manninum sagt að aka á eftir bifreið konunnar.
Úr Borgartúninu var farið í hverfi 113 (Grafarholt/Úlfarsárdalur) þar sem ætlunin var að ná peningum af manninum sem ráðist var á með því að taka út úr hraðbanka.
Manninum var síðan sagt að aka að heimili sínu þar sem karlmaðurinn sem grunaður er í málinu fylgdi honum inn, stal lyfjum og fleiru.
Þegar þeir voru síðan á leið út náði maðurinn sem fyrir árásinni varð að loka útihurðinni á þann grunaða og hringja síðan á lögreglu. Er málið til rannsóknar.
Klukkan 17:24 var síðan tilkynnt um líkamsárás í Heiðmörk. Í dagbók lögreglu kemur fram að ungur maður segi tvo menn hafa flutt sig í Heiðmörk þar sem hann var barinn með kylfu og úða beitt á hann.
Þá var hann látinn vaða út í Elliðavatn og var orðinn kaldur þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Var farið með manninn á bráðadeild til aðhlynningar og er málið í rannsókn.
Tveimur rænt á sama klukkutímanum
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
