Innlent

Formaðurinn býðst til að stíga til hliðar og vonar að Valgerður snúi aftur

Sylvía Hall skrifar
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir stöðuna hættulega og vonar að stjórnvöld bregðist við.
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir stöðuna hættulega og vonar að stjórnvöld bregðist við. Vísir

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, hefur ákveðið að bjóðast til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að Valgerður Á. Rúnarsdóttir yfirlæknir snúi aftur. Valgerður sagði upp á fimmtudag eftir að átta starfsmönnum var sagt upp án samráðs við hana eða aðra yfirmenn.

Í yfirlýsingu frá Arnþóri segir hann ástæðu uppsagnanna vera aukinn rekstrarkostnað og yfirvofandi erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins sem veldur COVID-19 og aðgerðir sem honum fylgja. Með tilkomu hans hverfi stór hluti sjálfsaflafé SÁÁ og reksturinn verði þar með of dýr.

„Um leið og þessi staða varð ljós var forstjóri Vogs upplýstur um að grípa þyrfti til aðgerða. Forstjórinn hafði í framhaldi samband við heilbrigðisráðherra og óskaði eftir fjárstuðningi en hafði því miður ekki erindi sem erfiði,“ segir í yfirlýsingunni þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd harðlega.

„Fyrirfram hefði mátt búast við því að stjórnvöldum rynni blóðið til skyldunnar í þessari ógnvænlegu stöðu og rétti SÁÁ hjálparhönd. Á uppreiknuðu verðlagi, allt frá árinu 1996, hafa SÁÁ samtökin greitt meira en 4 milljarða króna til heilbrigðisþjónustu meðferðarsviðs SÁÁ og skapað með því verðmæti og lífsgæði sem íslenskt samfélag nýtur góðs af í dag.“

Í gær sögðu þrír stjórnarmenn sig úr framkvæmdastjórn SÁÁ eftir uppsögn Valgerðar. Uppsögnin var harðlega gagnrýnd, bæði af fyrrum skjólstæðingum sem og fjölmörgum innan læknasamfélagsins.

Arnþór atburðarásina hraða og stöðuna hættulega. Því hafi þurft að taka erfiðar ákvarðanir til þess að bregðast við rekstrarerfiðleikum. Hann viðurkennir mikinn óróleika innan samtakanna en bætir þó við að enginn einstaklingur sé mikilvægari en SÁÁ.

„Mikill óróleiki er innan samtakanna og ég hef því ákveðið að bjóðast til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að forstjórinn dragi uppsögn sína til baka og finni betri lausn á rekstrarvanda samtakanna.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.