Innlent

Ekið á skokkara í Grafarvogi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Grafarvogi.
Frá Grafarvogi. Vísir/vilhelm

Ekið var á gangandi vegfaranda á Víkurvegi í Grafarvogi í Reykjavík á tíunda tímanum í gærkvöldi. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi farið sjálfur á læknavaktina með verki í olnboga – en þó óbrotinn.

„Sá slasaði sagðist hafa verið úti að hlaupa er óhappið varð. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð manninn fyrr en við óhappið,“ segir í dagbók lögreglu.

Þá virðist sem að tilkynnt hafi verið um þjófnað úr matvöruverslun við Fiskislóð úti á Granda í þrígang í gærkvöldi, klukkan 17:11, 18:59 og 21:56. Í dagbók lögreglu segir að einstaklingar hafi verið stöðvaðir er þeir voru að yfirgefa verslunina með varninginn, sem þeir höfðu ekki greitt fyrir.

Þá er kona grunuð um þjófnað á farsíma frá veitingastað við Laugaveg í miðbæ Reykjavíkur á ellefta tímanum í gærkvöldi. Konan er einnig grunuð um fjársvik þar sem hún yfirgaf staðinn án þess að greiða fyrir veitingar sem hún hafði fengið.

Þá var veski stolið úr yfirhöfn starfsmanns í fyrirtæki í Árbænum í gær. Yfirhöfnin var á kaffistofu starfsmanna og í veskinu voru greiðslukort, ökuskírteini og reiðufé.

Lögregla stöðvaði að síðustu ökumann sem reyndist sextán ára í miðbænum á fjórða tímanum í nótt. Hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi og var með tvo farþega í bifreiðinni, einnig 16 ára. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynningu til Barnaverndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×