Innlent

Á morgun liggur fyrir hvort 20 þúsund pinnar frá Össuri eru nothæfir í prófun fyrir veirunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

1250 pinnar til að taka sýni af fólki til þess að kanna hvort það sé smitað af kórónuveirunni voru til í morgun. 2750 bættust síðan við erlendis frá í dag. Þetta þýðir að um 4000 pinnar eru nú til á landinu. Verið er að prófa hvort aðrir 20 þúsund pinna geti orðið að gagni í prófum fyrir veirunni.

Miðað við þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir því að fá að fara í sýnatöku er gert ráð fyrir að pinnarnir muni endast fram í næstu viku. Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvenær má búast við næstu pinnasendingu hingað til lands.

Veirufræðideild Landspítalans gefur grænt ljós á þá pinna sem má nota, og ákvarðar þannig einnig hvaða pinna má ekki nota til greiningar á veirunni. Deildin hefur nú staðið í prófunum á pinnum frá heilbrigðistæknifyrirtækinu Össuri. Fyrirtækið tilkynnti nýverið að það ætti um 20 þúsund pinna á lager, sem upphaflega voru ætlaðir til annarra nota.

Karl Gústaf Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði ekki verið ánægðir með niðurstöðu þeirra prófana sem gerðar voru í gær. Því sé nú verið að prófa pinnana með annarri aðferð.

Búist er við að samkeyrslu niðurstaðna ljúki í kvöld, og að á morgun muni liggja fyrir hvort yfir höfuð verði hægt að nota umrædda pinna til prófana fyrir kórónuveirunni eða ekki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.