Lífið

Eldræða Magnúsar Scheving: „Við verðum fyrst út úr þessu Covid kjaftæði“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Magnús Scheving í Bítinu í morgun.
Magnús Scheving í Bítinu í morgun. Stöð 2

Athafnamaðurinn Magnús Scheving mætti í Bítið á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni í morgun og ræddi við þá Heimi Karlsson og Gulla Helga um ástandið í samfélaginu í dag.

„Sko það sem við þurfum að hugsa um núna er að ef við værum þjálfarar þá þurfum við að hugsa hver er styrkleiki okkar. Núna erum við að fara inn í erfiðan kafla og það er þoka framundan, það eru ský og óveður og nú þurfum við að fá fram alvöru skipstjóra, þjálfara eða leiðtoga. Ég held að þjóðin geti vel tekið við leiðsögn við svona aðstæður. Við Íslendingar erum ekkert rosalega góðir í því að gera langtímaplan,“ segir Magnús og heldur áfram.

„En þegar skipið er sokkið þá erum Íslendingar langbestir til þess að komast af við þær aðstæður. Við erum vertíðarþjóð og höfum alltaf verið. Þetta kunnum við best. Þess vegna vorum við fljót út úr kreppunni og við verðum fyrst út úr þessu Covid kjaftæði,“ segir Magnús ákveðinn. 

Hann segir að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir alla þjóðina að fara núna í sömu átt.

„Stundum þarf maður að hugsa „ég er kannski ekki alveg sammála þessu en við ætlum öll að keyra í sömu átt.“ Napoleon vann mörg stríð og hann vildi frekar hafa tvo heimska hershöfðingja sem fara í sömu átt við hliðina á sér heldur en tvo gáfaða sem fara í sitthvora áttina. Ég er aðeins að horfa á samfélagið núna og veit að þetta á eftir að versna miklu miklu meira. Þetta verður eins og sorgarferli og það á eftir að koma reiði og allskonar og við þurfum núna að fara hugsa sem 330 þúsund manna þjóð og gera vissa hluti til að hjálpa okkur og fara í sömu átt.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Magnús sem er í raun einskonar eldræða. 

Klippa: Bítið - Magnús SchevingFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.