Innlent

Rekja skjálftahrinu við Þorbjörn mögulega til niðurdælingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjallið Þorbjörn er svo að segja í bakgarði Grindvíkinga.
Fjallið Þorbjörn er svo að segja í bakgarði Grindvíkinga. Vísir/Vilhelm

Niðurdæling jarðhitavökva gæti verið hluti af skýringu jarðskjálftahrinu vestan við fjallið Þorbjörn við Grindavík sem hófst í dag. Tveir stærstu skjálftarnir í hrinunni voru yfir þrír að stærð og fundust þeir víða í byggð, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.

Stærstu skjálftarnir tveir voru 3,3 og 3,2 að stærð. Sá fyrrnefndi reið yfir klukkan 16:53 en sá síðarnefndi klukkan 17:56. Fleiri hundruð minni skjálfta hafa mælst í þessari hrinu, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar í kvöld.

Upptök skjálftanna í kvöld eru sögð grynnri en önnur skjálftavirkni á svæðinu hingað til og mælist nú nær jarðvarmavinnslusvæðinu í Svartsengi. Hugsanleg skýring á virkninni í þessari hrinu sem hófst í dag er því talið samspil niðurdælingar og landriss á svæðinu.

Samtals hefur jörð risið um átta sentímetra á svæðinu frá því í lok janúar, líklega vegna kvikuinnskots, sem hefur valdið spennubreytingum í jarðskorpunni og aukinni jarðskjálftavirkni. Veðurstofan útilokar ekki að svo stöddu að landrisið hafi valdið breytingum á jarðskorpunni á niðurdælingasvæðinu.

„Því er mögulegt að niðurdæling á jarðhitavökva, sem þó hefur haldist óbreytt, sé nú einnig farin að valda skjálftavirkni. Þetta samspil þarf að kanna betur með frekari greiningu á gögnum sem verður gert á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×