Innlent

Ritari Vinstri grænna: „Mikið vildi ég að Bjarni hefði stigið til hliðar“

Sylvía Hall skrifar
Ingibjörg Þórðardóttir er ritari Vinstri grænna.
Ingibjörg Þórðardóttir er ritari Vinstri grænna. Vinstri græn

Ingibjörg Þórðardóttir, ritari Vinstri grænna, segir veru Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þar sem sóttvarnareglum var greinilega ekki fylgt, það alvarlega að hann ætti að segja af sér. Hún sé þó ekki þeirrar skoðunar að samstarfsflokkarnir ættu að krefjast afsagnar.

Þetta segir Ingibjörg í samtali við Vísi, en hún hafði áður lýst þessari skoðun sinni við stöðuuppfærslu Björgvins Vals Guðmundssonar á Facebook. Þar sagði hún Vinstri græna ekki bera ábyrgð á Sjálfstæðisflokknum og „skömmin ætti að vera þar sem hún ætti heima“.

Aðspurð segir Ingibjörg ummælin endurspegla sína persónulegu skoðun þótt hún hafi ekki viðrað þessa skoðun innan flokksins sérstaklega. Henni þyki eðlilegt að ráðherra segi af sér, hann ætti að finna það hjá sjálfum sér.

„Ég er ekkert endilega á þeirri skoðun að ef hann gerir það ekki, og honum finnst hann ekki eiga að gera það, að það eigi að kosta stjórnarslit. Mér fyndist bara siðferðilega rétt af honum að segja af sér.“

Finnur fyrir óánægju víða

„Ég hef fundið það að fólk er óánægt með það að ráðherra í ríkisstjórn sem VG leiðir hafi brugðist. Ég held að það sé ekki einhver VG-skoðun, ég held að það sé skoðun landsmanna almennt,“ segir Ingibjörg um viðbrögð annarra flokksmanna.

Hún hafi þó alla tíð verið mikill stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og meðal annars lýst því yfir á flokksráðsfundi þar sem ákvörðun var tekin um samstarfið. Hún sé enn þeirrar skoðunar að samstarfið sé af hinu góða, ríkisstjórnin hafi staðið sig frábærlega og gert frábæra hluti til þessa.

„Á þessum tíma held ég að það hafi verið það eina rétta í stöðunni að fara í þetta ríkisstjórnarsamstarf, en Bjarni Ben brást og traustið hefur skaðast.“

Þá hafi ráðamenn í öðrum löndum sagt af sér vegna svipaðra mála án þess að þess sé sérstaklega krafist.

„Það er ekki þannig að aðrir flokkar séu að fara fram á það, menn segja bara af sér.“

Bjarni Benediktsson var staddur í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld, en lögregla leysti það upp vegna sóttvarnabrota. Vísir/Sigurjón

Umræðan óréttlát í garð Vinstri grænna 

Ingibjörg segir ósanngjarnt hvernig Vinstri græn eru látin bera ábyrgð á atvikinu og umræðan snúist að mestu um viðbrögð flokksins. Sú athygli sem viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fékk hafi verið meiri en tilefni var til.

„Mér finnst mjög óréttlát þessi umræða um það að Bjarni Ben hafi verið í einhverjum sal með 40-50 manns sé á ábyrgð VG. Hvernig Katrín Jakobsdóttir hefur verið úthrópuð fyrir það að Bjarni Ben hafi brugðist finnst mér mjög ósanngjörn umræða.“

Hún telur ólíklegt að það væri skynsamlegt á þessum tímapunkti að sprengja ríkisstjórnina og boða til kosninga. Það sé hennar mat að sú skoðun muni ekki endilega skaða flokkinn í næstu kosningum.

„Ég er ekki viss um það að þessi ákvörðun, að Katrín krefjist þess ekki að Bjarni segi af sér, að það muni skaða VG í næstu kosningum. Ég held jafnvel að ef hún myndi gera það og ríkisstjórnin myndi springa og við værum að fara í kosningar í janúar, í því ástandi sem við erum núna – ég held það væri ekki góður kostur,“ segir Ingibjörg. 

„En mikið vildi ég að Bjarni hefði stigið til hliðar og sagt af sér og það myndi einhver annar fjármálaráðherra taka við.“


Tengdar fréttir

Málið óheppilegt en mikilvægt að horfa á stóru myndina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist vonsvikinn yfir því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi virt sóttvarnarreglur að vettugi. Hins vegar sé bólusetning handan við hornið og því sé mikilvægt að halda í samstöðuna svo hægt sé að komast í gegnum heimsfaraldurinn.

Löðrungur framan í almenning

„Mér finnst þetta aumt og finnst þetta í rauninni vera löðrungur framan í almenning sem er að færa daglega, í hverri viku og mánuði miklar fórnir,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um viðbrögð forsætisráðherra og fjármálaráðherra við sóttvarnahliðarspori þess síðarnefnda í Ásmundarsal á Þorláksmessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×