Innlent

Telur kórónuveiruna ekki eiga roð í skötulyktina

Birgir Olgeirsson skrifar
Boðið var upp á  skötu á Múlakaffi í dag.
Boðið var upp á  skötu á Múlakaffi í dag. Vísir/Egill

Eigandi Múlakaffis hefur vart haft undan við að afgreiða skötu ofan í borgarbúa í aðdraganda jólanna. Gestir létu vel að skötunni í ár og nokkrir sögðust sannfærðir um að kórónuveiran ætti ekki roð í lyktina.

Engar fjölmennar skötuveislur voru í ár vegna samkomutakmarkana á Íslandi. Á Múlakaffi var brugðist við því.

Jóhannes Guðvarður Stefánsson, eigandi Múlakaffis, stóð sjálfur við dyrnar á veitingastað sínum í Hallarmúla í Reykjavík og taldi gesti inn sem biðu glorsólgnir eftir að komast skötu.

Boðið var upp á kæsta köstu á Múlakaffi á á mánudag og þriðjudag og einnig í dag, Þorláksmessu, eins og hefðin segir til um.

„Við erum búin að vera með skötu síðan á mánudaginn. Við höfum aldrei gert það áður í sögu fyrirtækisins en gerum það í ár í skjóli Covids,“ segir Jóhannes.

Í venjulegu árferði hefði hann mokað skötunni út, ekki bara á veitingastaðnum í Hallarmúla heldur einnig til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hann skipti staðnum niður í þrjú hólf í ár og gat verið með 45 manns inni í einu. Hann reiknar með að geta selt um fjögur hundruð til fimm hundruð skammta af skötu í dag, sem er ekki í nánd við það sem hann selur á venjulegu ári.

Gestir létu vel að skötunni. Sér í lagi Kolbrún Karlsdóttir.

Faðir hennar var Vestfirðingur og ólst hún upp við að borða skötu á Þorláksmessu. Hún sýður þó aldrei skötuna heima hjá sér, því hún kann illa við lyktina. Bragðið af skötunni er þó henni að skapi. 

„Og ég er viss um að allar veirur steindrepast ef þeim er haldið við pott sem skata er soðin í. Ég hugsa að það þurfi ekki að kaupa lyf erlendis frá. Það er nóg að sjóða vestfirska skötu og láta fólk anda að sér lyktina. Það ætti að flytja þetta út, það yrðu miklar útflutningstekjur af því,“ segir Kolbrún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×