Innlent

Læknir hafi van­rækt skyldur sínar gagn­vart konu sem lést nokkrum klukku­tímum eftir út­skrift

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bráðamóttakan í Fossvogi
Bráðamóttakan í Fossvogi Vísir/VIlhelm

Niðurstaða rannsóknar embættis landlækni á andláti Eygló Svövu Kristjánsdóttur er sögð leiða í ljós að læknir á bráðamóttöku Landspítalans hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart henni þegar komið var með Eygló á bráðamóttökuna í mars. Hún lést nokkrum klukkutímum eftir að hún var útskrifuð af bráðamóttökunni.

Frá þessu var greint í Kastljósi á RÚV í kvöld þar sem rætt var við Kristján Ingólfsson, föður Eyglóar, auk þess sem að greint var frá niðurstöðu rannsóknar embættis landlæknis á andláti Eyglóar, sem var 42 ára.

Í frétt RÚV kom fram að Eygló hafi leitað á bráðamóttökuna þann 26. mars síðastliðinn með skerta meðvitund og slappleika. Einum og hálfum tíma hafi læknir hins vegar tekið ákvörðun um að senda hana heim, en morguninn á eftir kom faðir hennar að henni látinni í rúmi sínu.

Niðurstaða úttektar landlæknis er sögð vera á þá leið að engar rannsóknir hafi verið gerðar á Eygló, sjúkrasaga hennar hafi ekki verið könnuð, auk þess sem að hvorki lífsmarkamæling né blóð- eða þvagprufa hafi verið tekin. Landlæknir er sagður meta það svo að mögulega hafi verið hægt að koma í veg fyrir ótímabært dauðsfall Eyglóar.

Segir í frétt RÚV að landlæknir meti það svo að læknir sem hafi verið ábyrgur fyrir greiningu og meðferð hennar hafi vanrækt skyldur sínar að skoða Eygló á fullnægjandi hátt og mæla fyrir um grundvallarrannsóknir, svo sá möguleiki væri fyrir hendi að uppgötva mætti alvarlegt ástand hennar og hefja rétta meðferð.

Faðir Eyglóar er ósáttur við Landspítalann og telur að Landspítalinn hafi notað sér heimsfaraldur kórónuveirunnar til þess að afsaka andlát dóttur hans, líkt og hann kemst að orði í viðtali við RÚV, en þar er meðal annars vísað í bréf spítalans til landlæknis vegna málsins þar sem fram kemur að erilsamt hafi verið á bráðamóttökunni vegna faraldursins.

Lesa má umfjöllun RÚV hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×