Innlent

Mun minna bólu­efni til Ís­lands á næstunni en búist var við

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Egill

Sóttvarnalæknir telur að ekki náist gott hjarðónæmi hér á landi fyrr en á seinni hluta næsta árs. Áfram verði kórónuveiruaðgerðir í gildi þar til mitt ár 2021 hið minnsta. Vonast hefði verið til að geta ráðist í umfangsmeiri bólusetningar eftir áramót en raunin verður.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar fór hann ítarlega yfir stöðu bólusetninga á Íslandi, sem eiga að hefjast nú í desember. 

Samkvæmt samningi Íslands við ESB og Pfizer hafi verið tryggðir skammtar fyrir alls 85 þúsund manns. Vegna skorts á hráefni seinkar framleiðslunni og við fáum minna bóluefni til landsins en til stóð á næstu mánuðum.

Bóluefni fyrir 5000 manns kemur til landsins um jólin og aftur fáum við sendingu í janúar eða febrúar, skammta fyrir 8000 manns. Þetta þýði að aftur þurfi að stokka upp í forgangsröðun bólusetningarinnar og áformað að hefja strax bólusetningu eftir jólin eins fljótt og hægt er.

Byrjað verður á því að bólusetja framlínufólk í heilbrigðisstéttum, um þúsund manns, og vistmenn á hjúkrunarheimilum, sem telja um 3-4000 manns. Í janúar og febrúar verði elstu aldurshópar áfram bólusettir.

Áfram aðgerðir fram á mitt næsta ár hið minnsta

Eftir það sagði Þórólfur framhaldið óljóst. Hann kvaðst ekki búast við að gott hjarðónæmi, þ.e. ónæmi fyrir a.m.k. 65 prósent þjóðarinnar, náist fyrr en á seinni hluta næsta árs, 2021. Ekki væri reiknað með frekara bóluefni til landsins fyrr en um mitt næsta ár eða seinni hluta ársins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafði áður talið að hjarðónæmi gæti verið komið hér á landi í lok mars.

Landsmenn muni því að sögn Þórólfs áfram þurfa að búa við takmarkanir á næsta ári og þurfa að viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum. Hægt verði að aflétta einhverjum takmörkunum undir mitt ár þegar búið verður að bólusetja viðkvæmustu hópa. Vonast hefði verið til að sjá hraðari og fjölmennari bólusetningar strax eftir áramót en raunin verður.

Ekki verði hægt að slaka á þeim takmörkunum sem nú eru í gangi fyrr en skýrist hvernig faraldurinn hegðar sér á næstu dögum og vikum. Tilslakanir væru þó alltaf í skoðun en þjóðin þyrfti áfram að standa saman og passa sig.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.