Innlent

Seðlabankastjóri vill ný viðmið fyrir lífeyrissjóðina

Heimir Már Pétursson skrifar

Seðlabankastjóri vill ný viðmið fyrir ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðina enda hafi vaxtaumhverfið gjörbreyst frá því núverandi stefna var mótuð. Mikilvægt sé að sjóðirnir gangi í takt við stefnuna í efnahagsmálum hverju sinni.

Í tekjubandormi ríkisstjórnarinnar er ríkissjóði gefnar heimildir til erlendrar lántöku upp á 650 milljarða á næsta ári. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að þetta sé jákvætt. Almennt sé staðan í fjármálakerfinu góð. Mikið til af lausafé hjá ríkissjóði, lífeyrissjóðum og viðskiptabönkunum. En nú þurfi að fara að huga að fjárfestingum.

Á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í dag lýsti seðlabankastjóri almennri ánægju með hvernig til hefði tekist með aðgerðum bankans frá því kórónuveirufaraldurinn skall á.

„Við höfum náð að bregðast við veirunni, höfum náð að stabilisera krónuna, náð að lækka vexti. Við höfum náð að einhverju leyti að örva einkaneyslu. Næsti áfangi er eftir sem er fjárfesting og ný störf og að við getum komið hagkerfinu aftur af stað,” segir Ásgeir.

Lífeyrissjóðirnir leika stórt hlutverk í fjármálakerfinu og fjárfestingum með sjóði upp á þúsundir milljarða. Ávöxtunarkrafa þeirra var sett á 3,5 prósenti fyrir um tveimur áratugum þegar vaxtaumhverfið var allt annað. Ásgeir segir mikilvægt að sjóðirnir móti stefnu í anda mikilvægis þeirra á fjármálamarkaði, í efnahagslífinu almennt og áhrifum á peningastefnuna.

„Mér finnst það mjög erfitt að vera með uppgjörskröfu fyrir lífeyrissjóði sem er algerlega ótengd áhættulausum vöxtum eða ríkisvöxtum í landinu. Að uppgjörskrafa þeirra sé algerlega ótengd því vaxtastigi sem er í landinu,” segir seðlabankastjóri.

Seðlabankinn vilji samtal við lífeyrissjóðina sem hingað til hafi gengið vel. Sett verði skýrari viðmið fyrir sjóðina og Seðlabankann og hann fái auknar heimildir til að bregðast við og tryggja stöðugleika í landinu.


Tengdar fréttir

Ásgeir segir aðgerðir Seðlabankans hafa gengið upp

Seðlabankastjóri segir aðgerðir bankans vegna kórónuveirufaraldurins hafa gengið vel og tryggt viðskiptabönkunum nægt lausafé. Þeir standi því vel til að ráðast í nausynlegar fjárfestingar og uppbygingu atvinnulífsins. Vanda þurfi til verka við nýja stefnumótun fyrir lífeyrissjóðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×