Innlent

Segir far­aldurinn á góðri niður­­­leið en fara þurfi mjög hægt í til­slakanir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi. Almannavarnir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir helgina hafa verið nokkuð góða hvað varðar nýgreiningar kórónuveirusmita. Þróunin sé jákvæð en hann minnir á að færri sýni voru tekin um helgina en dagana á undan.

„Þannig að tölur næstu daga munu skýra þetta kannski betur og þótt þróunin sé jákvæð þarf lítið að gerast til að við fáum aftur kipp í þróunina,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann hvatti áfram alla til að fá sýni tekið ef maður finnur fyrir minnstu einkennum.

Þá sagði hann áhugavert að hlutfall jákvæðra sýna hjá fólki með einkenni væri líka að lækka; það væri nú komið undir eitt prósent en var þegar mest lét allt að fimm prósent.

„Það er ljóst að faraldurinn er á góðri niðurleið og það er ánægjulegt að sjá hversu fáir eru utan sóttkvíar en við þurfum að fara varlega ef við ætlum ekki að fá uppsveiflu aftur,“ sagði Þórólfur.

Núverandi sóttvarnaaðgerðir gilda til og með næsta miðvikudegi og ný reglugerð á því að taka gildi á fimmtudag þegar akkúrat tvær vikur eru til jóla.

Þórólfur kvaðst ekki hafa sent ráðherra sínar endanlegu tillögur varðandi næstu aðgerðir en að hann myndi gera það í dag eða á morgun. Þess vegna væri ekki tímabært að ræða einstaka tillögur á þessari stundu.

„Það er þó í mínum huga ljóst að við þurfum að fara mjög hægt í allar tilslakanir. Því biðla ég til allra að virða allar sóttvarnareglur sem mönnum eiga að vera tamar og ljósar. […] Við eigum að vera tilbúin að halda lágstemmda aðventu, lágstemmd jól og lágstemmd áramót og vera tilbúin til að hitta einungis okkar nánasta fólk og virða í hvívetna okkar einstaklingsbundnu sóttvarnir,“ sagði Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.