Innlent

Flúðu á Hverfisgötu undan myglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78.
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78. Vísir/Egill

Samtökin ’78 hafa flutt skrifstofu sína í húsnæði á Hverfisgötu 39 vegna myglu sem fannst í húsakynnum Samtakanna við Suðurgötu. Frá þessu greina samtökin á Facebook í dag.

„Eins og formaður Samtakanna ’78 tilkynnti á félagsfundi nýverið þá fannst mygla í húsakynnum Samtakanna ’78 í Suðurgötu 3 sem getur haft skaðleg áhrif á starfsfólk sem er í átta tíma á dag, fimm sinnum í viku inni á skrifstofu,“ segir í tilkynningu Samtakanna í dag.

Nú sé leitað leiða til að losna við mygluna. Þá muni ráðgjafaþjónusta Samtakanna einnig flytja tímabundið í upphafi nýs árs.

„Við látum engan bilbug á okkur finna og munum vinna hörðum höndum að öllum góðum verkum héðan frá Hverfisgötu, að minnsta kosti í bili.“

Skrifstofa Samtakanna 78 hefur nú tímabundið flutt yfir á Hverfisgötu, nánar tiltekið Hverfisgötu 39 í bakhúsi hjá...

Posted by Samtökin '78 on Föstudagur, 4. desember 2020

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna og einn starfsmaður skrifstofunnar sem nú er flutt, segir í samtali við Vísi að starfsfólkið hafi byrjað að finna fyrir einkennum sem líktust veikindum af völdum myglu. Verkfræðistofan EFLA hafi í kjölfarið verið fengin til að kanna málið og fundið myglu í húsinu.

Daníel segir þó að myglan hafi ekki talist skæð og að enginn á skrifstofunni hafi orðið alvarlega veikur. Áfram fari fram fundir og ráðgjafaþjónusta í húsnæðinu við Suðurgötu og reynt verði að ráðast í hreinsunarframkvæmdir á nýju ári.

Húsnæði Samtakanna við Suðurgötu 3.Vísir/Egill

Samtökin leigja rýmið á Hverfisgötu sem nú hýsir skrifstofuna af ferðaskrifstofunni Pink Iceland.

„Þau eru alveg frábær. Rýmið hefur verið lítið notað síðustu mánuði en þau gerðu þetta yndislegt og fínt fyrir okkur,“ segir Daníel.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.