Innlent

Sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi en heldur ökuréttindum fyrir mistök

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Síðan slysið varð hefur Reykjanesbraut verið tvöfölduð.
Síðan slysið varð hefur Reykjanesbraut verið tvöfölduð. Vísir/Egill

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir karlmanni fyrir manndráp af gáleysi í október 2018. Var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bíl sínum yfir á rangan vegarhelming á Reykjanesbraut í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að árekstur varð við bíl sem kom úr gagnstæðri átt.

Farþegi í bíl mannsins lést í árekstrinum. Hann þarf að greiða ökumanni hins bílsins 600 þúsund krónur í miskabætur.

Lögreglu barst tilkynning á sjötta tímanum að morgni 28. október. Árekstur jepplings og fólksbíls varð á Reykjanesbraut til móts við verslun Bónus í Vallahverfinu. Fram kom í fréttum á þeim tíma að hinn látni hefði verið erlendur ferðamaður.

Ákærði sagðist við lögreglu á vettvangi hafa sofnað við aksturinn og ekki vaknað fyrr en áreksturinn varð. Hann vildi ekki staðfesta þá frásögn sína fyrir dómi. Þar kom fram að sannað þótti, með ljósmyndum og skýrslu tæknideildar, að hann hefði ekið bíl sínum yfir á rangan vegarhelming.

Hélt ökuréttindum

Var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bílnum án nægilegrar varúðar og þannig á sig kominn að vera ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega með þeim afleiðingum að ökutækið fór á rangan vegarhelming. Þar lenti það í árekstri með þeim afleiðingum að einn lést.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi ökumanninn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og svipti ökuréttindum í hálft ár. Landsréttur staðfesti refsinguna en þar sem ríkissaksóknari vék hvergi að kröfu um sviptingu ökuréttar fyrir Landsrétti eða rökstuðningi fyrir þeirri kröfu þótti dómnum ekki ástæða til að svipta hann ökurétti.

Reykjanesbrautin var á þessum tíma með eina akrein í hvora átt en síðan hefur Reykjanesbraut verið tvöfölduð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.