Innlent

Ekkert skyggni á Akureyri en rólegt hjá viðbragðsaðilum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jólakötturinn á Ráðhústorginu er í vetrarbúningi.
Jólakötturinn á Ráðhústorginu er í vetrarbúningi. Vísir/Tryggvi

Stíf norðanátt hefur verið á Akureyri undanfarin sólahring eða svo og talsverð snjókoma. Lítið skyggni er innanbæjar en búið er að ryðja helstu leiðir. Lögregla biður fólk um að fresta langferðum ef hægt er en dagurinn hefur verið rólegur hjá lögreglu og björgunarsveitum á svæðinu.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi hér að neðan er veðrið ekkert sérstakt á Akureyri þessa stundina. Gul veðurviðvaranir eru í gildi fyrir allt landið utan þess að appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðausturland. Á Norðurlandi eystra hefur verið norðan hvassviðri með snjókomu og skafrenningi það sem af er degi.

Lítil skakkaföll hafa þó fylgt þessu veðri en samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hafa lítil sem engin útköll verið á Norðurlandi frá því í morgun. Lögreglan á Norðurlandi eystra hvetur landsmenn eindregið til þess að vera sem minnst á ferðinni í dag ef mögulegt en þó er búið að opna Öxnadalsheiðina og Vatnskarðið að nýju.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri hefur lögreglan ekki haft mikið að gera í tengslum við veðrið utan þess að aðstoða einstaka ökumenn sem fest hafa bíla sína hér og þar um bæinn.

Á vef Akureyrarbæjar eru bæjarbúar hvattir til að hafa jákvæðni og þolinmæði að vopni í dag vegna snjókomunnar. Áhersla sé lögð á það að halda helstu gangstígum, stofnbrautum og tengibrautum opnum. Aðstæður séu hins vegar erfiðar, mikil úrkoma og fok, þannig að færðin geti verið fljót að spillast aftur og sést jafnvel ekki að mokað hafi verið fyrir fáeinum klukkutímum.

Reiknað er með að veðrið gangi niður á morgun og þá verður settur kraftur í að hreinsa sem allra mest af bænum fyrir helgina, að því er segir á vef bæjarins.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.