Ævar Annel Valgarðsson, tvítugur Reykvíkingur sem lögregla hefur leitað síðan á föstudaginn, er kominn í leitirnar.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að Ævar Annel hafi gefið sig fram. Hann sé nú í haldi lögreglu og ekki verði veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.
Rannsókn á ofbeldismáli
Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist leitin að Ævari Annel rannsókn lögreglu á máli tæplega þrítugs karlmanns, lærðs bardagaíþróttamanns, sem úrskurðaður var í tveggja vikna gæsluvarðhald á föstudaginn. Meðal gagna í málinu er myndband sem bardagamaðurinn birti af sér ráðast á Ævar Annel.
Bardagamaðurinn birti myndband á Facebook-síðu sinni sunnudaginn 15. nóvember þar sem það var sýnilegt í vel á annan sólarhring. Bardagamaðurinn var handtekinn ásamt öðrum manni og færður til skýrslutöku en svo sleppt. Myndbandið var fjarlægt í framhaldi af handtöku bardagamannsins.
Tveimur dögum síðar, þriðjudaginn 17. nóvember, var bensínsprengju kastað inn í íbúð í fjölbýlishús við Friggjarbrunn í Úlfarsárdal og kviknaði í. Bardagamaðurinn mun hafa búið í íbúðinni en enginn var á vettvangi þegar lögreglu og slökkvilið bar að garði. Hratt gekk að slökkva eldinn.
Í gæsluvarðhaldi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðst svo í nokkuð umfangsmiklar aðgerðir að kvöldi fimmtudagsins 19. nóvember sem stóðu fram á nótt. Ráðist var í húsleitir og tveir karlmenn á þrítugsaldri handteknir.
Bardagaíþróttamaðurinn er annar þeirra en fréttastofa þekkir ekki deili á hinum. Sá fyrrnefndi var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Móðir Ævars Annels sagði í samtali við Vísi í gær að hún vonaði að Ævar Annel gæfi sig fram. Hún vissi að það væri í lagi með hann en ekki hvar hann héldi sig.