Innlent

Lögreglan stefnir Sjóvá vegna tjóns sem varð vegna ofsaaksturs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sjóvá hafnar bótaábyrgð í málinu og hefur úrskurðarnefnd vátryggingarmála fallist á sjónarmið tryggingafélagsins. Lögreglan leitar hins vegar réttar síns fyrir dómstólum.
Sjóvá hafnar bótaábyrgð í málinu og hefur úrskurðarnefnd vátryggingarmála fallist á sjónarmið tryggingafélagsins. Lögreglan leitar hins vegar réttar síns fyrir dómstólum. Vísir/Hanna

Ríkislögreglustjóri hefur stefnt tryggingafélaginu Sjóvá vegna tjóns sem varð á lögreglubíl þegar lögregla veitti ökumanni eftirför sem ók á ofsahraða á Miklubraut árið 2018.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að réttaróvissa ríki um ábyrgð á því tjóni sem verður á lögreglubílum þegar ökumönnum er veitt eftirför eða þeir stöðvaðir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglunnar.

Lögreglan vilji að tjónið verði bætt í gegnum ábyrgðartryggingu ökumanns en tryggingafélagið hafni bótaáabyrgð þar sem lögreglan valdi tjóni af ásetningi.

Málið kom til kasta úrskurðarnefndar vátryggingarmála sem í fyrra komst að þeirri niðurstöðu að lögreglan verði að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af því hlutverki hennar að halda uppi lögum og reglu.

Lögreglan lítur engu að síður áfram svo á að tryggingafélagi ökumannsins beri að bæta tjónið og hefur sérstaklega vísað til 15. greinar og 19. greinar lögreglulaga.

Sú fyrri kveður á um að lögreglu sé heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana á kostnað manns til þess að koma í veg fyrir að óhlýðni hans stofni almenningi í hættu eða valdi tjóni. Síðarnefnda greinin kveður á um skyldu almennings að hlýða fyrirmælum lögreglu.

Að því er segir í Fréttablaðinu leitast ríkislögreglustjóri við það með málshöfðun sinni nú að eyða réttaróvissu um ábyrgð á tjóni lögreglunnar af aðgerðum sem þessum. Málið hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur og stendur gagnaöflun nú yfir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.