Innlent

Flytja mann með þyrlu til Reykja­víkur vegna vinnu­slyss

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Aðeins ein þyrla Landhelgisgæslunnar er flughæf sem stendur.
Aðeins ein þyrla Landhelgisgæslunnar er flughæf sem stendur. Vísir/Vilhelm

Uppfært klukkan 18:20: Meiðsli þeirra sem lentu í umferðarslysinu voru ekki jafn alvarleg og talið var í fyrstu. Því verður sá sem lenti í vinnuslysinu fluttur með þyrlunni frá Selfossflugvelli á Landspítalann, samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Upprunalegu fréttina má sjá hér að neðan.

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli nú fyrir skömmu til að bregðast við útkalli vegna vinnuslyss á Suðurlandi. Stuttu síðar barst önnur beiðni um liðsinni þyrlusveitarinnar vegna umferðarslyss undir Ingólfsfjalli.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi. Hann segir að ráðgert hafi verið að þyrlan myndi fljúga til móts við sjúkrabíl og lenda á Selfossflugvelli vegna fyrra útkallsins sem barst. Í ljósi þess að annað útkall hafi borist verði hins vegar að meta aðstæður, en að svo stöddu ekki liggur fyrir hvernig aðgerðum gæslunnar verður háttað.

Þyrlan sem nú er flogið á Suðurland er eina flughæfa þyrla Landhelgisgæslunnar sem stendur, en vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni stendur nú yfir. Ásgeir kveðst ekki geta fullyrt að hægt hefði verið að senda út tvær þyrlur ef vinnustöðvunin stæði ekki yfir.

„Staðan er sú að það er ein þyrla og tvö útköll á sama tíma. Það vill svo til að þetta er á svipuðum slóðum og fyrirkomulagið verður bara metið, hvernig flutningi verður háttað,“ segir Ásgeir.

Fyrr í dag flaug þyrlan á Suðurland og flutti mann til Reykjavíkur sem lent hafði í vinnuslysi í Biskupstungum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.