Innlent

Eiga eftir að ræða hvort orðið verði við ósk Brynjars

Kristín Ólafsdóttir og Heimir Már Pétursson skrifa
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/vilhelm

Fjármálaráðherra segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eigi eftir að ræða hvort skipað verði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í stað Brynjars Níelssonar, þingmanns flokksins, sem óskað hefur eftir að hætta í nefndinni. Ráðherra segir það jafnframt hárrétt að óvenjulegt sé að þingmaður vilji hætta í nefnd af þeim ástæðum sem Brynjar vísar til.

Brynjar sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hefði óskað eftir því að hætta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og teldi starf hennar sjónarspil og pólitískan leik. Hann hefur ekki mætt á fundi nefndarinnar í rúman mánuð og kvað fjarveruna eiga sér langan aðdraganda.

„Ég hef einfaldlega bara sagt að ég er ekki til í að taka þátt í því sem ég kalla leikþætti og sýndarmennsku í nefndinni,“ sagði Brynjar í samtali við fréttastofu í dag.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var inntur eftir viðbrögðum við málinu eftir ríkisstjórnarfund í dag. Bjarni hló við og kvað hárrétt að það væri óvenjulegt að þingmaður vildi hætta í nefnd af þessum ástæðum.

„En hann verður auðvitað að tala fyrir sjálfan sig í því. Við getum hlustað eftir því í þingflokknum hvernig við mönnum nefndir,“ sagði Bjarni.

„Mér finnst þetta vera í framhaldi af því að það hefur verið ágreiningur um það hvernig einstaka nefndum hefur verið stýrt og hvaða áherslur eru þar ofan á.“

Gengið upp og ofan

Hann benti á að á þingi væri annars vegar stjórnarmeirihluti og hins vegar væri forystu í nefndum þingsins deilt niður eftir þingstyrk. „Það hefur gengið upp að ofan í því, skulum við bara segja.“

Heldurðu að þingflokkurinn láti þetta eftir honum [Brynjari], að skipa einhvern annan í nefndina fyrir hann?

„Ja, við eigum eftir að ræða það,“ sagði Bjarni.

Brynjar sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hefði óskað eftir því við þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins að fá að hætta í nefndinni, raunverulega „gert kröfu um það“. Það hefði ekki borið árangur enn þá enda flókið að skipta út nefndarmanni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×