Innlent

Segir nikótínfíkn meðal unglinga áhyggjuefni og kallar eftir lagasetningu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Notkun nikótínpúða hefur færst í aukana meðal ungmenna
Notkun nikótínpúða hefur færst í aukana meðal ungmenna

Verk­efnis­stjóri tóbaks­varna hefur miklar áhyggjur af niktótínpúðanotkun meðal unglinga en fimmtán prósent nemenda í 10. bekk hafa notað slíka púða. Hann segir brýnt að setja lög um aldurs­tak­mörk og inni­halds­lýsingar.

Rannsóknir- og greining leggja árlega könnun fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk. Nú í september og október var könnun lögð fyrir rúmlega níu þúsund nemendur í áttatíu og einum skóla víðs vegar á landinu. Notkun svokallaðra nikótínpúða var í fyrsta sinn könnuð hjá hópnum og í ljós kom að næstum einn af hverjum tíu nemendum í 10. bekk falla undir flokk daglegra notenda. Þá höfðu fimmtán prósent tíundubekkinga notað nikótínpúða einu sinni eða oftar um ævina. 

Hafsteinn Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá Landlækni, hefur áhyggjur af þróuninni. „Við sjáum að krakkar eru að nota þessa púða og nikótínnotkun er mjög ávanabindandi og það er bara mjög slæmt að unglingar séu að nota þessa púða og verða háðir nikótíni,“ segir Hafsteinn Viðar. 

Koma þessar tölur á óvart? „Ég get ekki sagt það því við sjáum að það hefur dregið töluvert úr rafrettunotkun og við sjáum líka að sala á íslenska neftóbakinu hefur dregist saman um helmning þannig við áttum von á því að sjá töluverða notkun í þessum aldurshópi,“ segir Hafsteinn Viðar.

Embætti landlæknis gerði könnun á notkun fullorðinna á nikótínpúðum í sumar en þar kom fram að tæplega tuttugu prósent karlamanna á aldrinum 18 til 34 ára nota nikótínpúða. 

Hafsteinn Viðar segir lagaumgjörð skorta utan um þessa vöru. „Við þurfum að fá skýran lagaramma utan um nikótínpúða þar sem er tekið á aldurstakmarki, innihaldslýsingum og umgjörð um innflutning og sölu á svipaðan hátt og er gert með rafrettur,“ segir Hafsteinn. 

Frumvarp um nikótínpúða sé nú í vinnslu í heilbrigðisráðuneytinu. „En sem stendur gilda engin lög um þetta,“ segir Hafsteinn sem telur brýnt að brugðist verði fljótt við þróuninni. 


Tengdar fréttir

Einn af hverjum tíu nemendum í tíunda bekk nota níkótínpúða

Ný rannsókn sýnir að andlegri heilsu barna í efstu árgöngum grunnskóla hefur hrakað síðan kórónuveirufaraldurinn fór af stað. Þá kemur í ljós að næstum einn af hverjum tíu unglingum í tíunda bekk notar nikótínpúða daglega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×