Innlent

Bráða­birgða­frí­verslunar­samningur við Bret­land í höfn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bretland mun segja skilið við innri markað Evrópu um áramótin en með nýjum bráðabirgðafríverslunarsamningi milli Bretlands, Íslands og Noregs munu viðskipti milli ríkjanna halda smurt áfram þar til fríverslunarsamningur er í höfn.
Bretland mun segja skilið við innri markað Evrópu um áramótin en með nýjum bráðabirgðafríverslunarsamningi milli Bretlands, Íslands og Noregs munu viðskipti milli ríkjanna halda smurt áfram þar til fríverslunarsamningur er í höfn. EPA-EFE/ANDY RAIN

Ísland, Noregur og Bretland hafa komist að samkomulagi að bráðabirgðafríverslunarsamningi, sem mun taka gildi 1. janúar næstkomandi þar til fríverslunarsamningur milli ríkjanna er í höfn. Samkomulagið komst á 23. október síðastliðinn en hann var áritaður í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu stjórnarráðsins

Bráðabirgðasamningurinn tryggir að viðskipti milli ríkjanna munu halda áfram óheft, þrátt fyrir að Bretland segi skilið við innri markað Evrópu á miðnætti þann 31. desember næstkomandi. Samningurinn tryggir meðal annars að tollar verða ekki hækkaðir á vörum þrátt fyrir að Bretland yfirgefi innri markaðinn.

Í dag er Bretland enn aðili að innri markaði Evrópu vegna aðildar Bretlands að Evrópusambandinu. Það mun þó breytast um áramót, þegar Bretland segir formlega skilið við sambandið. Ísland á einnig aðild að innri markaðnum vegna aðildar Íslands að EES samningnum.

Fram kemur á heimasíðu norska stjórnarráðsins að bráðabirgðasamningurinn sé byggður á samningi sem Noregur og Bretland samþykktu í apríl 2019 og var hann gerður til þess að fríverslun væri tryggð milli ríkjanna kæmi til þess að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið án útgöngusamnings.

Enn á eftir að fara í gegn um formlega ferla áður en samningurinn verður undirritaður af ríkjunum þremur en gert er ráð fyrir því að það verði gert um miðjan desembermánuð.

Enn standa yfir viðræður milli Bretlands, Noregs, Íslands og Liechtenstein um nýjan fríverslunarsamning. Fram kemur á heimasíðu norska stjórnarráðsins að þrátt fyrir að samningurinn verði yfirgripsmikill muni hann aldrei koma í stað EES samningsins. Ríkin verði því að búa sig undir það að eiga í annars konar fríverslunarsambandi við Bretland en áður.


Tengdar fréttir

Bretar og ESB deila enn á ný

Ríkisstjórn Bretlands ætlar að setja ný lög sem myndu breyta tollakerfi landsins gagnvart Evrópusambandinu. Forsætisráðuneytið þvertekur fyrir að lögin brjóti gegn Brexit-samkomulaginu við ESB.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×