Innlent

„Það er bara ekkert hægt að standa í þessu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tryggvi Gunnarsson sat fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun.
Tryggvi Gunnarsson sat fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Vísir

Umboðsmaður Alþingis segir þingmenn þurfa að gera það upp við sig hvort embættið eigi að geta sinnt svokölluðum frumkvæðisathugunum en vegna fjárskorts, og þar af leiðandi mannfæðar, sé ekkert ráðrúm til þess að óbreyttu.

„Hvað vilja menn með þennan þátt?“ spurði Tryggvi Gunnarsson á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun, þar sem fjallað var um ársskýrslu embættisins fyrir árið 2019.

Síðustu misseri hafa frumkvæðisathuganirnar verið á könnu tveggja starfsmanna umboðsmanns en Tryggvi sagðist hafa lagt til í tillögum að fjármálaáætlun að þeim yrði fjölgað í þrjá árið 2021 og fjóra árið 2024. Þær hugmyndir hefðu hins vegar ekki fundið hljómgrunn hjá ríkisstjórninni.

Vilja ekkert að það sé verið að ónáða sig

„Við [vinnslu fjármálaáætlunnar] kom fram athyglisverð ábending eða athugasemd frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem ég held að sé best að vísa til ykkar vegna þess að ég tel að það séuð þið sem þurfið að svara henni en ekki við. Þeir spyrja einfaldlega: Er einhver áhætta fólgin í því að framkvæma ekki frumkvæðisathuganir?“ sagði Tryggvi á fundinum.

Auðvitað mætti svara því játandi.

„Þá verða bara engar umbætur. Því hvert er jú tilefni þess að umboðsmaður hefur þessa heimild? Ja, það er að leiða til umbóta í starfi stjórnsýslunnar. Sumir kannski vilja þær bara ekkert, vilja ekkert að það sé verið að ónáða sig.“

Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að tala mál til meðferðar. Þá getur hann tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. 

„Þetta er ekkert einkamál umboðsmanns“

Nú væri hins vegar útlit fyrir að frumkvæðisathuganirnar væru á leið í kassa.

„Það er ekkert hægt að standa í þessu. Nú hvers vegna segi ég þetta? Jú, það er vegna þess að það er leitað til okkar nánast á hverjum degi. Fólk úti í samfélaginu sem vekur athygli okkar á málum sem það telur að verði skoðuð á þeim grundvelli. Við verðum að svara því: Nei, við getum það ekki. Og það er óþægilegt að vekja upp væntingar hjá fólki um að þarna sé einhver leið til þess að fá slík mál skoðuð. Þá er betra að vera hreinskilinn og segja bara einfaldlega: Við höfum enga aðstöðu til að sinna þessu. En það verður að vera ykkar að taka afstöðu til þess hvað þið viljið gera. Þetta er ekkert einkamál umboðsmanns, þetta er bara hlutverk sem hann er að reyna að sinna eftir því sem hann getur.“

Upptöku af fundinum má finna á vef Alþingis.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.