Innlent

Katrín hafnar því að gengið sé of langt í sóttvörnum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Íslendinga ekki hafa gengið of langt í aðgerðum sínum. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Íslendinga ekki hafa gengið of langt í aðgerðum sínum.  Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafnar því að stjórnvöld séu að ganga of langt í sóttvarnaraðgerðum hér á landi. Hún segir að ef litið sé til annarra landa sé ljóst að Íslendingar gangi skemur í sóttvarnarráðstöfunum á mörgum sviðum.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein á Vísi í gær þar sem hann gagnrýndi sóttvarnaðgerðir ríkisstjórnarinnar harðlega og talaði meðal annars um það sem hann kallaði alræði sóttvarna, sem hefði sýnt sig að væri óskilvirkt.

Katrín ræddi þessi mál meðfram öðru í spjalli í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Tökum bara sem dæmi hvernig hefur gengið núna í löndunum í kringum okkur þar sem við erum að sjá vöxt í faraldrinum ennþá. Stundum finnst mér umræðan vera þannig að við séum bara hér, ein í heiminum, að eiga við þennan faraldur. Og að við séum að ganga mjög langt í því að ná honum niður. Það er auðvitað ekki svo. Við erum bara að sjá það að við erum að einhverju leyti að beita sömu aðferðum og ríki sem við berum okkur saman við, og göngum meira að segja heldur skemur í sóttvarnaaðgerðum á mörgum sviðum en kannski lengra á öðrum,“ sagði forsætisráðherra.

Einhugur á stjórnarheimilinu

Katrín benti á að í aðgerðunum hafi Íslendingar náð að nýta sér smæð landsins. „Til að mynda hefur smitrakning gengið mjög vel á Íslandi.“

Hún ítrekaði einnig að á stjórnarheimilinu sé einhugur um aðgerðirnar.

„Það er alltaf mikil umræða um stöðuna, og þó það nú væri. Þetta er auðvitað mikilvægasta verkefni sem við höfum tekist á við sem ríkisstjórn. En það hefur verið einhugur í ríkisstjórninni um niðurstöðuna hverju sinni þó að umræðan hafi verið mikil,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Bítinu á Bylgjunni í morgun en viðtalið má hlusta á í heild sinni hér að neðan.  


Tengdar fréttir

Alræði

Brynjar Níelsson fjallar um sóttvarnir og telur okkur sem þjóð hafa villst verulega af leið í baráttunni við veiruna; meðalið er að drepa sjúklinginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×