Innlent

Fyrsta vís­bending um að það sé að hægjast á far­aldrinum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær. Almannavarnir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir marktæka breytingu á þeim fjölda sem greindist með kórónuveiruna í gær miðað við fjöldann sem greindist fyrir helgi.

27 manns greindust innanlands með veiruna í gær og voru hátt í 2000 sýni tekin, líkt og á föstudag, þegar 48 manns greindust jákvæðir.

„Þetta eru jákvæð merki klárlega, að við séum að byrja að sjá þetta síga niður. En við þurfum aðeins að bíða og sjá með næstu daga. Það voru tekin hátt í 2000 sýni sem er bara svipað og fyrir helgina þannig að þetta er alveg marktæk breyting sem er jákvætt,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

Hann segir aðgerðir nú miða að því að verja heilbrigðiskerfið.

„Við erum að bæta í samhæfinguna og samvinnuna á milli stofnana um það og höldum því áfram næstu daga en við eigum nokkuð marga daga eftir enn þá áður en við erum komin fyrir vind varðandi heilbrigðiskerfið.“

Sjö og fjórtán daga meðaltöl sýna breytingu niður á við

Aðspurður hvort að fjöldi smita í gær sé vísbending um að það sé að hægjast á faraldrinum segir Víðir:

„Já, ég held að þetta sé fyrsta vísbending um að það sé að gerast. Við höfum alltaf varað við því að horfa á einstaka daga, við horfum alltaf á sjö og fjórtán daga meðaltal og þau bæði sýna breytingu niður á við sem er jákvætt.“

Eins og greint var frá í fréttum í gær er stór hluti íbúa Dalvíkur, eða um tíu prósent, í sóttkví vegna smita sem komu upp í bænum.

Víðir segir smitrakningu hafa gengið vel og að ekki hafi greinst smit utan sóttkvíar í bænum í nokkra daga.

Þegar líður að helginni fer fram skimun hjá stórum hluta þeirra sem eru í sóttkví.

„Þannig að við sjáum eftir fjóra, fimm daga hvernig staðan raunverulega er þar þegar fólk fer að fara í skimun úr sóttkví,“ segir Víðir.

Þá kveðst hann ekki vita til þess að fleiri smit hafi komið upp á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík en síðdegis í gær var greint frá því að einn heimilismaður þar hefði greinst með veiruna. Víðir segir að vel hafi gengið að ná utan um smitið og að farið hafi verið eftir öllum verkferlum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×