Innlent

Viðbrögð veiðimanna komu Víði á óvart

Samúel Karl Ólason og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir það koma sér á óvart að rjúpnaveiðimenn séu ósáttir við lítinn fyrirvara vegna tilkynningar um að það væri ekki í anda núverandi reglna að fara í ferðalög á milli landshluta við rjúpnaveiði. Það hefði ekki fyrst verið bent á það í gær. Áður hafi verið bent á það á fimmtudaginn og talað hafi verið um ferðalög á milli landshluta í margar viku.

Í yfirlýsingu frá skotveiðifélaginu Skotvís segir að félagið hafi ítrekað óskað eftir fundum með yfirvöldum fyrir rjúpnaveiðitímabilið en ekki fengið slíkan fund.

Mikil óánægja sé með tilmælin meðal veiðimanna.

Víðir sagði í samtali við fréttastofu í dag að það hafi þótt rétt að hnykkja á tilmælunum í gær. Það hafi legið fyrir að rjúpnaveiðimenn væru margir farnir af stað.

Víðir segir rjúpnaveiði vera holla og fína sem slíka. Þar séu ekki miklar líkur á smitum. Það séu ferðalögin sem séu vandamálið.

„Við heyrum áhyggjur lögregluembættanna á landsbyggðinni þar sem mikið er bókað í sumarhús, mikið bókað á hótel. Þetta er auðvitað fólk sem er þá að fara á milli landshluta. Við erum búin að tala um það í margar vikur, að hvetja fólk til að ferðast ekki á milli landshluta,“ segir Víðir.

Þar að auki hafi sérstaklega verið talað um rjúpnaveiðina á fimmtudaginn. Veiðitímabilið hafi byrjað í dag en þeir sem hafi ætlað sér að fara til dæmis um næstu helgi hafi nú nægan tíma til að velta hlutunum fyrir sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×