Innlent

Skipu­lags­dagur í öllum skólum höfuð­borgar­svæðisins á mánu­dag

Sylvía Hall skrifar
Mánudagurinn verður nýttur í að skipuleggja skólastarfið með hliðsjón af núgildandi takmörkunum.
Mánudagurinn verður nýttur í að skipuleggja skólastarfið með hliðsjón af núgildandi takmörkunum. Vísir/hanna

Sveitarfélögin og almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að hafa skipulagsdag í leik- og grunnskólum, tónlistarskólum og frístundastarfi næstkomandi mánudag. Er þetta gert vegna hertra sóttvarnareglna og verður dagurinn nýttur í að skipuleggja starfið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu nú síðdegis þar sem segir að nánari upplýsingar um skólastarf verði sent frá skólum til foreldra og forráðamanna. Þar verði framhaldið skýrt og mun skóla- og frístundastarf hefjast með breyttu sniði á þriðjudag, 3. nóvember.

Nýjar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti og kveður samkomubann nú á um tíu manna hámarksfjölda. Núgildandi reglugerð kemur til með að hafa áhrif á skólastarf með einhverjum hætti, enda börn fædd 2005 og seinna ekki lengur undanþegin nálægðartakmörkunum.

Á blaðamannafundi í gær greindi Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra frá því að skólarnir yrðu opnir, en með takmörkunun þó. Takmarkanirnar myndu taka gildi um miðja næstu viku.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að meira væri um smit milli nemenda á grunnskólaaldri núna en var í vor og nú sé stefnt að því að „loka fyrir alla leka“ með eins fáum undanþágum og mögulegt er.

„Við vildum reyna að loka fyrir alla leka alls staðar eins og vel og við gætum til þess að ná þessu öllu niður, gera þetta á eins skýran hátt með eins fáum undanþágum og mögulegt er því þessar undanþágur sem við höfum verið að veita hafa verið að valda smá ruglingi,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×