Innlent

Rúm­lega tuttugu smitaðir í Öldu­sels­skóla

Atli Ísleifsson skrifar
Nemendur í Ölduselsskóla í Reykjavík eru um fimm hundruð.
Nemendur í Ölduselsskóla í Reykjavík eru um fimm hundruð. Vísir/Vilhelm

Alls hafa rúmlega tuttugu starfsmenn og nemendur í Ölduselsskóla í Reykjavík greinst smituð af kórónuveirunni sem veldur Covid-19.

Þetta staðfestir Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, í samtali við Vísi. Greint var frá því um helgina að fimm starfsmenn skólans hefðu greinst með kórónuveirusmit og voru um fjögur hundruð nemendur og aðrir starfsmenn í kjölfarið sendir í sóttkví . Þá var ákveðið að loka skólanum.

Elínrós segir að þorri nemenda sem hafi verið sendur í sóttkví hafi lokið henni í gær, en vegna hinna nýrra smita sé ljóst að einhverjir verði áfram í sóttkví.

Hún segir að alls sé um sjö starfsmenn að ræða og að hinir sem greinst hafa séu nemendur í öðrum, fimmta, sjötta og sjöunda bekk skólans. Endanlegur fjöldi liggi ekki fyrir, enda nýjar upplýsingar enn að berast. Þó sé ljóst að heildarfjöldinn sé yfir tuttugu.

„Alltaf þegar svona kemur upp þá leggja sig allir fram að vinna saman. Við höfum reynt að upplýsa foreldra og starfsmenn um gang mála og hafa allir sýnt þessu skilning,“ segir Elínrós.

Vetrarfrí hefur verið í Ölduselsskóla, líkt og í öðrum skólum, en ákveðið var að hafa einn aukafrídag, það er í dag, vegna ástandsins.

Til stendur að opna skólann að nýju á morgun, og segir Elínrós að dagurinn í dag sé nýttur til að vinna úr nýjum upplýsingum í tengslum við smitin.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×