Innlent

Vill virkja ein­eltis­ráð betur og auka sýni­leika þess

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, vill leggja aukna áherslu á eineltismál innan ráðuneytisins.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, vill leggja aukna áherslu á eineltismál innan ráðuneytisins. Vísir/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálráðherra, ætlar að leggja aukna áherslu á eineltismál innan menntamálaráðuneytisins og virkja eineltisráð betur.

Þá sé hún sem menntamálaráðherra ósátt við að barn þurfi að hætta í skólanum sínum vegna eineltis. Einelti sé mikil meinsemd og geti haft langtímaáhrif á framtíð fólks.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við ráðherra. Umræða um eineltismál hefur verið mikil undanfarna daga eftir að Sigríður Elín Ásmundsdóttir, móðir drengs í 6. bekk í Sjálandsskóla, lýsti alvarlegu einelti sem sonur hennar varð fyrir í skólanum. Sigríður brá á það ráð að taka son sinn úr Sjálandsskóla.

Fram kemur í Morgunblaðinu að Lilja hafi sett sig í samband við Sigríði. Þá hafi hún einnig rætt við forráðamenn í Sjálandsskóla.

Auk þess að virkja betur fagráð eineltismála verður farið í aðgerðir í samvinnu við Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektor við Háskóla Íslands, en hún hefur sérhæft sig í málaflokknum.

Hlutverk eineltisráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með leiðbeiningum, ráðgjöf og upplýsingagjöf. Þá er hægt að vísa málum þangað ef ekki tekst að leysa eineltismál á fullnægjandi hátt innan skólans eða sveitarfélagsins, eða vegna meints aðgerðarleysis sömu aðila.

Eineltisráðið kom ekki að fyrrnefndu máli í Sjálandsskóla. Lilja segir að auka þurfi sýnileika ráðsins og kynna það betur. Til standi að gera það.

„Ég vil að við get­um styrkt kerfið okk­ar þannig að þessi mál fari í betri far­veg. Við höf­um sett á fót fagráð einelt­is­mála inni í mennta­mála­stofn­un og þegar mál­in eru kom­in í öngstræti þá þarf fagráðið að koma að mál­inu. Mig lang­ar að þróa þenn­an fer­il bet­ur í sam­vinnu við skóla­sam­fé­lagið og við for­eldra­sam­fé­lagið,“ seg­ir Lilja í Morgunblaðinu í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.