Lilja Alfreðsdóttir, menntamálráðherra, ætlar að leggja aukna áherslu á eineltismál innan menntamálaráðuneytisins og virkja eineltisráð betur.
Þá sé hún sem menntamálaráðherra ósátt við að barn þurfi að hætta í skólanum sínum vegna eineltis. Einelti sé mikil meinsemd og geti haft langtímaáhrif á framtíð fólks.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við ráðherra. Umræða um eineltismál hefur verið mikil undanfarna daga eftir að Sigríður Elín Ásmundsdóttir, móðir drengs í 6. bekk í Sjálandsskóla, lýsti alvarlegu einelti sem sonur hennar varð fyrir í skólanum. Sigríður brá á það ráð að taka son sinn úr Sjálandsskóla.
Fram kemur í Morgunblaðinu að Lilja hafi sett sig í samband við Sigríði. Þá hafi hún einnig rætt við forráðamenn í Sjálandsskóla.
Auk þess að virkja betur fagráð eineltismála verður farið í aðgerðir í samvinnu við Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektor við Háskóla Íslands, en hún hefur sérhæft sig í málaflokknum.
Hlutverk eineltisráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með leiðbeiningum, ráðgjöf og upplýsingagjöf. Þá er hægt að vísa málum þangað ef ekki tekst að leysa eineltismál á fullnægjandi hátt innan skólans eða sveitarfélagsins, eða vegna meints aðgerðarleysis sömu aðila.
Eineltisráðið kom ekki að fyrrnefndu máli í Sjálandsskóla. Lilja segir að auka þurfi sýnileika ráðsins og kynna það betur. Til standi að gera það.
„Ég vil að við getum styrkt kerfið okkar þannig að þessi mál fari í betri farveg. Við höfum sett á fót fagráð eineltismála inni í menntamálastofnun og þegar málin eru komin í öngstræti þá þarf fagráðið að koma að málinu. Mig langar að þróa þennan feril betur í samvinnu við skólasamfélagið og við foreldrasamfélagið,“ segir Lilja í Morgunblaðinu í dag.