Einn er nú í öndunarvél með Covid-19 og fjórir á gjörgæslu á Landspítalanum. Þetta staðfestir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, í samtali við Vísi. Hún segir að enginn þeirra tíu Covid-sjúklinga sem fluttir voru af Landakoti yfir á Landspítalann séu á gjörgæslu.
Tveir hafa þá verið fluttir á Landspítalann af hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka, eftir að hafa greinst með kórónuveiruna í gærkvöldi.
Nokkur fjöldi starfsfólks spítalans hefur þurft að fara í sóttkví vegna hópsýkingarinnar á Landakoti. Þá hafa fleiri starfsmenn farið í sóttkví að undanförnu vegna samskipta við smitaða einstaklinga. Hún segir að í þeirri bylgju faraldursins sem nú ríður yfir hafi ekki enn þurft að leita í bakvarðarsveitir heilbrigðisstarfsfólks.
„Við erum ekki byrjuð á því. Það kann að vera að við þurfum að gera það, en við höfum ekki gert það núna. Við höfum náð að manna þetta nokkuð,“ segir Anna Sigrún.
Hún segir þá að sumir þeirra starfsmanna sem hafi þurft að fara í sóttkví geti þó sótt vinnu, og eru þá í annað hvort sóttkví B eða C, sem oft er einu nafni nefnt vinnusóttkví.
„Þetta er ómissandi fólk sem fer þá í vinnu, þrátt fyrir að vera í sóttkví.“