Innlent

„Lög­reglu­manna að vera með­vitaðir um að gefa ekki nein slík merki frá sér“

Atli Ísleifsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að ef þurfi að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telji rétt, þá verði það gert.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að ef þurfi að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telji rétt, þá verði það gert. Eggert Jóhannesson/Vilhelm Gunnarsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir það alveg vera skýrt að haturstákn og sjónarmið verði ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis.

Áslaug Arna segir þetta í röð tísta sem hún birti í morgun í tilefni af umfjöllun gærdagsins um merki að einhverjir lögreglumenn beri fána með áróðri nýnasista á undirvesti einkennisbúningsins. Talsverð reiði braust út á samfélagsmiðlum vegna myndar sem sýndi íslenskan lögreglumann bera umdeilda fána á búningi sínum.

Menntun aukin ef þurfa þykir

Áslaug Arna segir að ef þurfi að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telji rétt, þá verði það gert. „Það er líka lögreglumanna að vera meðvitaðir um að gefa ekki nein slík merki frá sér. Ekki með táknum orðum né handahreyfingum. Núna liggur það fyrir skýrar en nokkru sinni og öllum ætti að vera ljóst hvaða þýðingu einstök merki hafa. Við munum því að gera meiri kröfur hér eftir,“ segir dómsmálaráðherra.

Ráðherra segir ennfremur að hann telji lögregluna hafa brugðist við með réttum og afgerandi hætti í gær. „Búið að gefa út með skýrum hætti að það sé bannað bera slík merki innan lögreglunnar. Tekið var skýrlega fram að lögreglan styður ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt.

Ég held að við séum flest sammála um það að íslenskir lögreglumenn leggi sig almennt fram við að koma fram við fólk af vinsemd og virðingu. Lögreglan á að sýna fram á að hún starfi og þjóni öllum þeim sem hér búa og dvelja – og ég tel að hún geri það,“ segir ráðherra í tístunum.

Þrjá fána var að finna á búningi lögreglukonunnar.Eggert Jóhannesson

Þrír fánar

Myndin er nokkurra ára gömul en birtist með frétt á vef Mbl í gær. Lögreglukonan sagði í samtali við Vísi að hún hafi ekki vitað ef neikvæðri merkingu fánanna. Hún noti fánana ennþá. 

Þrír fánar sjást á undirvesti lögreglukonunnar. Efsti fáninn er svarthvít útgáfa af íslenska fánanum með blárri línu sem hefur erlendis þótt taka pólitíska afstöðu með „blue lives matter“ hreyf­ing­unni gegn „black lives matter“. Þannig hef­ur hann verið tengd­ur við hvíta þjóðern­is­hyggju.

Þriðji fáninn er svokallaður Vínlandsfáni sem hefur verið tekinn upp af hvítum öfgahópum og nýnasistum.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist í gær munu óska eftir því við allsherjar- og menntamálanefnd að taka málið fyrir á fundi og ræða við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan hennar og aðferðir til þess að sporna við honum. Þá hefur tilkynning um fánana verið send til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×