Innlent

„Þetta eru alls ekki skilaboð sem lögregla vill senda frá sér“

Nadine Guðrún Yaghi og Samúel Karl Ólason skrifa

Yfirlögregluþjónn segist hafa orðið algjörlega miður sín þegar hann frétti að einhverjir lögreglumenn bæru fána með áróðri nýnasista á undirvesti einkennisbúningsins.

Talsverð reiði braust út á samfélagsmiðlum í dag vegna myndar sem sýnir íslenskan lögreglumann bera umdeilda fána á búningi sínum.

Myndin er nokkurra ára gömul en birtist með frétt á vef Mbl í morgun. Lögreglukonan segir í samtali við fréttastofu að hún hafi ekki vitað ef neikvæðri merkingu fánanna. Hún noti þá ennþá.

Fáni sem öfgahópar flagga

Þrír fánar sjást á undirvesti lögreglukonunnar.

Efsti fáninn er svarthvít útgáfa af íslenska fánanum með blárri línu sem hefur erlendis þótt taka pólitíska afstöðu með „blue lives matter“ hreyf­ing­unni gegn „black lives matter“. Þannig hef­ur hann verið tengd­ur við hvíta þjóðern­is­hyggju.

Þriðji fáninn er svokallaður Vínlandsfáni sem hefur verið tekinn upp af hvítum öfgahópum og nýnasistum.

„Með hauskúpumerki sem er með merki The Punisher og lögreglan er ekki Punisher og það eru algjörlega röng skilaboð sem er verið að senda þarna til fólks,“segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ásgeir varð algjörlega miður sín þegar hann sá myndina í dag og harmar málið. Það fari gegn gildum lögreglunnar að bera áróður nýnasista á einkennisbúningi sínum.

„Við erum að reyna ná til hópa sem þessi merki eru í raun og veru að sýna að við séum að fara á móti undir yfirborðinu. Þetta eru alls ekki skilaboð sem lögreglan vill senda frá sér.“

Myndin umtalað sem er þó þriggja ára gömul.Eggert Jóhannesson

Það hafi tíðkast að lögreglumenn beri merki undir vestinu sínu, til dæmis með blóðflokki sínum eða gamla héraðslögreglumannsnúmerið.

„En svo virðist sem að þarna hafi farið inn merki sem eiga ekki heima í nánd við lögregluna.“

Hann hafi fengið sendar myndir af nokkrum fánum í dag.

Umdeildar yfir í algjörlega ósmekklegar

„Þær eru alveg frá því að vera allt í lagi, í það að vera í besta falli umdeildar, í það að vera algjörlega ósmekklegar,“ segir Ásgeir.

Ásgeir Þór segir að sér hafi verið  verulega brugðið þegar hann fékk veður af fánunum.Vísir/vilhelm

Fyrirmæli hafa verið send til lögregluþjóna að það verði engir fánar eða merki sem tilheyri ekki lögreglubúningnum á fatnaði lögregluþjóna. Ásgeir segir það hafa verið gert um leið og hann hafi séð fréttir af þessu máli.

Myndskeiði með fréttinni hefur verið breytt. Í upprunalegu útgáfu hennar sást í almenna lögregluþjóna sem tengjast fréttinni ekki.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.