Innlent

Hætta við að skrá sig í bakvarðasveit vegna skerðinga á lánum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aníta segir að mun fleiri myndu skrá sig á lista ef ekki væri fyrir skerðingar og ófullnægjandi svigrúm.
Aníta segir að mun fleiri myndu skrá sig á lista ef ekki væri fyrir skerðingar og ófullnægjandi svigrúm. Aníta Runólfsdóttir

Skerðing á námslánum og ófullnægjandi svigrúm háskólanna í yfirstandandi bylgju kórónuveirufaraldursins hefur orðið til þess að fjölmargt ungt fólk hefur hætt við að skrá sig í bakvarðasveitina. Anítu Runólfsdóttur, sjúkraliða í námi, rennur blóðið til skyldunnar en hún segist ekki mega við neinum skerðingum því hún hafi tvö börn á sínu framfæri.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær biðlaði Alma Möller, landlæknir, til fólks að skrá sig í bakvarðasveitina því þörfin væri mikil. Ekki hefur gengið eins vel að manna bakvarðasveitina í yfirstandandi bylgju og í vor. Í fyrstu bylgju faraldursins skráðu yfir þúsund manns sig í bakvarðasveitina en í þetta sinn hafa rúmlega þrjú hundruð skráð sig.

Aníta hefur sterkan grun um að skerðingar á námslánum og ófullnægjandi svigrúm háskólanna í þriðju bylgju valdi því að fólk skráir sig síður á lista. Í fyrstu bylgjunni fengu nemendur annað hvort „staðið“ eða „fallið“ fyrir námskeið. Slíku svigrúmi sé þó ekki fyrir að fara nú.

„Ég er heilbrigðismenntuð - er sjúkraliði og í námi í félagsráðgjöf og hefði haft áhuga á að sinna bakvarðasveitinni mun betur og taka meiri þátt þar sem það vantar bæði innan félags- og heilbrigðiskerfisins. Það sem aftrar mér frá því að taka virkari þátt er sú staðreynd að ef ég tek of margar vaktir þá mun það hafa skerðingu í för með sér. Þá tekur skólinn í ekki jafn virkan þátt í að sýna tillit varðandi einkunnir í skólanum.“

Aníta segir að á meðal nemenda sé mikið rætt um þær hindranir sem standi í vegi fyrir því að nemar taki þátt í bakvarðasveitinni. Sem sé mikil synd því fjölmargir hafi áhuga á að leggja hönd á plóg.

„Þetta hefur verið til umræðu. Fólk sem er í námi hefur sérstaklega haft orð á því að það vanti virkilega svigrúm til að hægt sé að stökkva í vinnu.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.