Innlent

Skoða eigi leiðir til að treysta á aðra þegar mikið álag er á Landspítala

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. vísir/vilhelm

Fjármálaráðherra segir unnið að því að fjölga hjúkrunarrýmum utan opinbera kerfisins. Leita eigi annarra leiða þegar dregur úr getu Landspítalans.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort auka ætti einkarekstur í heilbrigðisþjónustu til að draga úr álagi á kerfið.

„Er ekki rétti tíminn núna til þess að við léttum á heilbrigðiskerfinu og fáum meira fyrir útgjöld skattgreiðendanna með því að semja við einkareknar stofur?“ spurði Sigmundur á Alþingi í morgun.

Fjármálaráðherra sagði óháð miklu álagi á kerfið í faraldrinum almennt góða ráðstöfun að semja við þá sem geti veitt heilbrigðisþjónustu með sveigjanlegum og hagkvæmum hætti. Til að mynda aðgerðir sem unnt sé að framkvæma utan sjúkrahúsa.

„Ég held að það sé hárrétt ábending að að því marki sem dregið hefur úr getu Landspítalans til að sinna slíkum verkefnum þá eigum við að skoða leiðir til að treysta meira á aðra,“ sagði Bjarni.

Öll miðlæg sjúkrahúsþjónusta verði áfram að vera hjá Landspítalanum en horfa megi  til annarra aðgerða og einnig til hjúkrunarheimila. Bjarni vísaði til þess að vandi Landspítalans í faraldrinum hefði einna helst verið fráflæðisvandinn, sem dregið hafi úr viðbragðsgetu spítalans og þrótti til að taka við innlögnum sjúklinga sem smitaðir eru af kórónuveirunni.

„Þetta er mjög alvarlegt mál. Á sama tíma erum við með óhagkvæmar einingar, eins og t.d. á Vífilsstöðum, sem var algjört bráðabirgðaúrræði. Nú eru í gangi samtöl um að reyna að auka framboð af plássum einmitt í samstarfi við aðila utan hins opinbera kerfis,“ sagði Bjarni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×