Innlent

Aðstoðuðu konu sem villtist við Helgafell

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Helgafelli í Hafnarfirði. Myndin er úr safni.
Frá Helgafelli í Hafnarfirði. Myndin er úr safni. Vísir/Einar

Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu konu sem villtist af leið eftir að hún gekk á Helgafell í Hafnarfirði í kvöld. Konan var þokkalega haldin þegar hún fannst og er hún nú á leið til byggða.

Konan hafði sjálf samband við Neyðarlínu og var þá óskað eftir aðstoð björgunarsveita um klukkan 18:30 í kvöld. Hún var þá sögð þokkalega klædd og óslösuð.

Um tuttugu mínútum eftir að útkallið barst var björgunarsveitarmaður kominn á staðinn og hóf hann leit, að því er sagði í tilkynningu sem Landsbjörg sendi frá sér skömmu fyrir klukkan hálf átta. Samband náðist fljótt við konuna og gengu björgunarsveitarmenn að staðnum þar sem þeir töldu hana vera úr tveimur áttum.

Rétt eftir að tilkynningin var send út gengu björgunarsveitarmenn fram á konuna á línuvegi austan við Helgafell. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við Vísi að ástandið á konunni hafi verið þokkalegt en henni hafi verið kalt eftir röltið í rökkrinu. Hún er nú á leið til byggða.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×