Innlent

Dreifing mjólkur frá kúabúi stöðvuð eftir ítrekuð brot

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Matvælastofnun segir að um ítrekuð brot sé að ræða.
Matvælastofnun segir að um ítrekuð brot sé að ræða.

Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu mjólkur frá bænum Auðbrekku II í Hörgársveit. Hollustuhættir á kúabúinu eru ófullnægjandi, haughús yfirfullt og flæddi út á heimreið. 

Um ítrekað brot er að ræða án þess að kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafi verið virtar að því er fram kemur á heimasíðu MAST.

Þar segir að Matvælastofnun hafi heimild til að stöðva starfsemi ef um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Dreifingarbann verður á búinu þar til úrbótum er lokið.

Auðbrekka II var auglýst til sölu í sumar ásamt eyðijörðinni Hólkoti. Þar kom fram að til sölu væri allt sem jörðinni fylgdi meðal annars útihús. Þá væri einnig til sölu 250 þúsund lítra greiðslumark í mjólk sem og rúmlega 400 fermetra íbúðarhús.

Ólafur Rúnar Ólafsson, lögmaður á Akureyri sem hafði aðkomu að sölu jarðarinnar í sumar, segir að engin mjólkurframleiðsla sé í gangi á bænum. Búið sé að selja jörðina. Aðeins þrjár mjólkandi kýr séu í fjósinu sem fari í sláturhús í kvöld. Aðrar mjólkurkýr hafi verið seldar og fluttar annað. Skilaboðin hafi greinilega ekki borist til Matvælastofnunar.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×