Innlent

Sveitar­fé­lögin segja að­gerðir stjórn­valda ekki duga

Heimir Már Pétursson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og svietarstjórnarráðherra á fjármálastefnu ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og svietarstjórnarráðherra á fjármálastefnu ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Vísir/Vilhelm

Samband íslenskra sveitarfélaga segir að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa kórónufaraldursins á þau dugi ekki til. Sveitarstjórnarráðherra segir almennar aðgerðir stjórnvalda einnig koma sveitarfélögum til góða.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti sérstakar aðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa kórónufaraldursins á fjárhag sveitarfélaganna upp á 4,8 milljarða á fjármálastefnu þeirra í dag. Sex hundruð og sjötíu milljónir fara til málefna fatlaðra, hálfur milljarður til sveitarfélaga í mestum vanda og 720 milljónir til að standa undir fjárhagsaðstoð við einstaklinga svo dæmi séu tekin.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir þessar aðgerðir ekki duga.

„Þær eru auðvitað langt frá því að duga fyrir þeirri fjárvöntun sem sveitarfélögin standa frami fyrir. Við stöndum frami fyrir fimmtíu milljarða fjárvöntun í ár og á næsta ári,“ segir Aldís.

Sigurður Ingi segir aðgerðir stjórnvalda byggja á nýrri greiningu starfshóps á stöðu sveitarfélaganna. Sameiginlegur vandi þeirra vegna kórónufaraldursins væri upp á um 33 milljarða.

„Mín afstaða er sú að það hlýtur að vera leiðarljós hjá hinu opinbera að hjálpa hinum veiku í gegnum erfiðleikana. En ekki setja þá á gjörgæslu sem eru við góða heilsu,“ segir Sigurður Ingi.

Stjórnvöld hafi hvatt þau sveitarfélög sem það gætu til aukinnar lántöku með sama hætti og ríkið fjármagnaði sínar aðgerðir. Þau fresti gjöldum, lækki þau eða fell niður og auki fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. 

Þá komi hundruða milljarða samgönguframkvæmdir á næstu árum sveitarfélögunum til góða eins og allar þær aðgerðir sem gripið hafi verið til að undanförnu.

„Hlutabótaleiðin og öflugt atvinnuleysistryggingakerfi hefur til dæmis án efa gert það að verkum að fallið í útsvarinu er minna en búast mátti við,“ sagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á fjármálastefnu ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.


Tengdar fréttir

Mikið tekjufall hjá Akureyrarbæ á þessu ári

Það stefnir í allt að 3,5 milljarða halla á samstæðu Akureyrarbæjar og allt að 2,5 milljarða á A-hluta bæjarsjóðs á þessu ári. Bærinn getur illa sinnt öðrum en lögbundnum verkefnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×