Innlent

Krossleggur putta meðan fimm Gullverjar bíða niðurstöðu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gullver í höfn á Seyðisfirði.
Gullver í höfn á Seyðisfirði. Síldarvinnslan/Ómar Bogason

Fimm skipverjar á Gullveri, skipi Síldarvinnslunnar, bíða niðurstöðu úr Covid-19 skimun sem þeir fóru í snemma í morgun. Hinir tíu eru í sjálfskipuðu sóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir. Framleiðslustjóri Síldarvinnslunnar segir málið tekið alvarlega en vonast að um haustpest sé að ræða.

Skipinu var siglt til hafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi eftir að fimm skipverjar voru með einkenni sem gætu bent til Covid-smits af sem kórónuveiran veldur. Starfsfólk frá Heilbrigðisstofnun Austurlands hitti skipverjana í morgunsárið og tók af þeim sýni.

Ómar Bogason, framleiðslustjóri bolfisks hjá Síldarvinnslunni, segir skipverjana bíða niðurstöðu á hóteli í bænum. Hinir tíu séu í leiguhúsnæði sem alla jafna er nýtt af ferðamönnum sem lítið er af hér á landi þessa dagana.

„Mér fannst það mjög vel gert hjá þeim. Þeir hefðu getað farið heim á herbergi,“ segir Ómar. Allir vilji fara varlega og skipverjarnir því frestað að hitta konu og börn svo alls öryggis væri gætt.

„Maður vonar að þetta sé bara haustpest. Okkur ber að fara varlega. Ég er mjög ánægður með skipstjórann. Hann tók á þessu af mikilli festu.“

Verið er að landa úr skipinu sem stendur en aðeins þrír fara um borð í skipið, í hlífðarbúnaði. Skipið er lokað að því undanskildu lestinni og löndunarkrana um borð í skipinu.

Ómar segir að frekari ákvarðanir verði teknar þegar niðurstaða liggi fyrir, vonandi seinna í dag. Mögulegu smiti sé tekið af mikilli alvöru.

„Ef af yrði er þetta gríðarlega stórt mál á svona litlum stað eins og Seyðisfirði. Þá þyrftu margir að fara í einangrun. Maður krossar putta og vonar að þetta sé bara flensa.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.