Innlent

Segir Gunnar Jóhann hafa verið með mikið magn áfengis og fíkniefna í blóði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. Réttarhöld yfir Gunnari Jóhanni hófust á mánudag en þeim hefur verið frestað í tvígang.
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. Réttarhöld yfir Gunnari Jóhanni hófust á mánudag en þeim hefur verið frestað í tvígang. TV2/CHRISTOFFER ROBIN JENSEN

Gunnar Jóhann Gunnarsson var með mikið magn fíkniefna og áfengis í blóði sínu kvöldið sem hann varð Gísla Þór Þórarinssyni, hálfbróður sínum, að bana þann þann 27. apríl 2019 í Mehamn í Noregi. Þetta hefur staðarmiðillinn iFinnmark eftir lyfja- og eiturefnafræðingnum Jørg Mørland.

Mørland var skipaður af Héraðsdómi Austur-Finnmerkur til þess að leggja mat á umfang áfengis- og fíkniefnaneyslu Gunnars umrætt kvöld. Komst hann að þeirri niðurstöðu að áfengismagn í blóði Gunnars hafi verið 3-4 prómill. Niðurstöðuna byggði hann á blóðsýni sem tekið var úr Gunnari daginn eftir að hann varð Gísla að bana, sem og upplýsingum um áfengisneyslu hans daginn áður og sama dag.

Gunnar hefur gengist við því að hafa orðið Gísla að bana, en segir að skot hafi hlaupið úr byssu hans í átökum bræðranna. Hann er ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði en aðalmeðferð í máli hans stendur yfir þessa dagana.

„Það er ákveðin óvissa í tengslum við útreikninga sem þessa, en styrkur áfengis í blóði hans var líklega í kring um tvö, jafnvel rúmlega tvö, prómill þegar atvikið átti sér stað,“ hefur iFinnmark eftir Mørland.

Hann bætir við að önnur efni sem Gunnar hafi innbyrt, kókaín, amfetamín og virka efnið í valíumi, hafi valdið því að magn áfengis og fíkniefna í blóði hans hafi verið á bilinu þrjú til fjögur prómill. Mørland segir að magn líkt og þetta geti reynst mörgum lífshættulegt.

Mørland segir því ljóst að Gunnar Jóhann hafi verið undir miklum áhrifum þegar hann varð hálfbróður sínum að bana. Magn líkt því sem hafi verið í blóði hans geti valdið því að neytandinn glati sjálfsstjórn, verði hvatvísari og áhættusæknari. Eins sagði Mørland að gera mætti ráð fyrir því að áhrifunum fylgdi minnistap. Hann bætti þó við að við aðstæður sem þessar geti áhrif áfengis og vímuefna á fólk verið afar mismunandi eftir einstaklingum.


Tengdar fréttir

Vitni full eftir­sjár vegna at­burðarins í Mehamn

Fjöldi fólks sem var í partýi með Gunnari Jóhanni Gunnarssyni sama kvöld og hann varð Gísla Þór Þórarinssyni, hálfbróður sínum, að bana hefur stigið fram og lýst eftirsjá vegna atburðanna.

Haglabyssan biluð og ekki hægt að útiloka voðaskot

Galli er á haglabyssunni sem skot hljóp úr og banaði Gísla Þór Þórarinssyni í Mehamn í Noregi í apríl í fyrra. Þetta staðfestu vopnasérfræðingar hjá rannsóknarlögreglunni í dómsal í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.