Fótbolti

Sama byrjunarlið og í risasigrinum á Lettum: Sara Björk jafnar leikjametið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 133. landsleik á móti Svíum í kvöld og jafnar landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur.
Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 133. landsleik á móti Svíum í kvöld og jafnar landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur. Vísir/Vilhelm

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt á móti Svíum á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni EM 2022.

Jón Þór gerir enga breytinguna á byrjunarliði sínu á milli leikja. Sömu ellefu byrja og lögðu grunninn að 9-0 sigri á Lettum í síðustu viku.

Ísland mætir Svíþjóð í öðrum af úrslitaleiknum um sigur í riðli þjóðanna í undankeppni EM en bæði liðin hafa unnið alla leiki sína til þessa. Liðin mætast síðan í Svíþjóð í næsta mánuði.

Jón Þór Hauksson vakti athygli fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifærið í síðasta leik og hann gefur þeim áfram traustið.

Ungu Blikarnir Sveindís Jane Jónsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir halda nefnilega allar sæti sínu í byrjunarliðinu en þær voru mjög flottar í stórsigrinum á móti Lettum og voru allar á skotskónum.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verður því áfram hægri bakvörður og Ingibjörg Sigurðardóttir er búin að jafna sig af meiðslunum sem hún varð fyrir í Lettaleiknum.

Alexandra Jóhannsdóttir verður inn á miðjunni með reynsluboltunum Söru Björk Gunnarsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur. Sara Björk Gunnarsdóttir jafnar því landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur í kvöld. Dagný Brynjarsdóttir var tæp fyrir Lettaleikinn en skoraði þrennu þrátt fyrir að spila bara fyrri hálfleikinn.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir spila síðan sitthvorum megin við Elínu Mettu Jensen. Karólína Lea var fyrsta konan til að skora meira en eitt mark í sínum fyrsta landsleik og Karólína Lea var búin að leggja upp mark eftir aðeins fjórar mínútur.

Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 133. landsleik sem er jöfnun á meti Katrínar Jónsdóttur.  Hallbera Guðný Gísladóttir spilar sinn 114. landsleik og kemst þar með upp í fjórða sætið sem hún deilir með Dóru Maríu Lárusdóttur.

Byrjunarlið Íslands á móti Svíum í kvöld:

 • Markvörður
 • Sandra Sigurðardóttir
 • Vörn
 • Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
 • Ingibjörg Sigurðardóttir
 • Glódís Perla Viggósdóttir
 • Hallbera Guðný Gísladóttir
 • Miðja
 • Sara Björk Gunnarsdóttir
 • Alexandra Jóhannsdóttir
 • Dagný Brynjarsdóttir
 • Sókn
 • Sveindís Jane Jónsdóttir
 • Elín Metta Jensen
 • Karólína Lea Vilhjálmsdóttir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.