Innlent

Mun leggja til að skemmti­staðir verði á­fram lokaðir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja það til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, að skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verði haldið lokuðum viku lengur en til stóð í fyrstu, eða til og með sunnudeginum 27. september. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Skellt var í lás á skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn föstudag eftir að fjöldi nýrra kórónuveirusmita var rakinn til slíkra staða í miðborg Reykjavíkur. Þegar gripið var til lokana stóð til að þær yrðu í gildi þangað til næsta þriðjudags.

Á upplýsingafundinum í dag sagðist Þórólfur ekki telja tilefni til hertari samkomutakmarkana eða sóttvarnaráðstafana en nú eru í gildi, fyrir utan áðurnefndar lokanir.

Síðastliðna tvo daga hafa 113 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi, 75 í fyrradag og 38 í gær. Ítarlegar upplýsingar um framvindu faraldursins hér á landi er að finna á vef almannavarna og landlæknis, covid.is.


Tengdar fréttir

Reynsla og rakning minnkar þörf á hörðum aðgerðum

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að vegna meiri reynslu og umfangsmikillar smitrakningar sé ekki þörf á umfangsmiklum sóttvarnaraðgerðum, enn sem komið er. Nú sé til mun meiri reynsla en þegar gripið var til harðra aðgerða í vetur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.