Innlent

„Það bara lék allt á reiðiskjálfi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá höfninni á Húsavík.
Frá höfninni á Húsavík. Vísir/Vilhelm

„Heldur betur,“ segir Guðmundur A. Hólmgeirsson, íbúi á Húsavík, aðspurður um það hvort hann hafi fundið jarðskjálftann sem reið yfir Húsavík og nágrenni skömmu fyrir klukkan þrjú í dag.

Jarðskjálftinn mældist 4,6 að stærð en upptök hans voru töluvert nær landi en fyrri skjálftar í jarðskjálftahrinunni sem hófst á svæðinu í sumar. Upptökin voru inn í Skjálfandaflóa, 6,8 kílómetrum suðaustur af Flatey eða um tuttugu kílómetrum frá Húsavík.

„Það bara lék allt á reiðiskjálfi,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. Guðmundur man tímanna tvenna en segist þó ekki muna eftir jafn hastarlegum skjálfta.

„Ég bý hérna í timburhúsi, tveggja hæða. Við vorum úti á verönd og þá kemur þessi hrikalegi skjálfti. Þetta var mjög áþreifanlegt,“ segir hann.

Guðmundur og fjölskylda hans eiga hús í Flatey og voru einmitt að koma þaðan fyrr í dag. Hann segist hafa verið út í eyju þegar fyrsti stóri jarðskjálftinn í hrinunni reið yfir fyrr í sumar, en að skjálftinn í dag hafi verið mun snarpari.

„Þetta var miklu hastarlegra.“

Skjálftinn fannst vel á Akureyri og víðar. Til að mynda hringdi íbúi á Dalvík inn á fréttastofu sem sagðist hafa þurft að halda í sjónvarpið á heimili sínu svo það myndi ekki hrynja í gólfið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.