Innlent

Þriðji starfs­maður HÍ smitaður

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Háskólasvæðinu.
Frá Háskólasvæðinu. Vísir/Vilhelm

Enn einn starfsmaður Háskóla Íslands hefur smitast af kórónuveirunni. Frá þessu greinir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í pósti til nemenda og starfsmanna skólans.

Greint var frá því í gær að starfsmaður aðalbyggingar annars vegar og starfsmaður veitingasölunnar Hámu hafi smitast af veirunni og er rektor sjálfur einn þeirra sem er í sóttkví vegna smitsins í aðalbyggingu.

Til viðbótar við starfsmann aðalbyggingar og Hámu hefur starfsmaður í Setbergi - húsi kennslunnar nú smitast.

Rektor segir að smitrakningarteymi almannavarna hafi farið rækilega yfir þessi tilvik og sett fólk í sóttkví eftir því sem þurfa þykir til að treysta öryggi allra, starfsfólks og nemenda. Allt starfsfólk Hámu á Háskólatorgi hafi þannig verið sett í sóttkví og veitingastaðnum þar lokað tímabundið. Smitrakningateymi almannavarna meti áhættu viðskiptavina Hámu óverulega og þeir þurfa því ekki að fara í sóttkví.

„Í ljósi stöðunnar er afar eðlilegt að margir séu uggandi og hvet ég ykkur kæru nemendur og samstarfsfólk til að nýta ykkur gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu sem við bjóðum.

Eins og sakir standa er brýnt að ráðstefnur, málþing og fundir verði alfarið með rafrænum hætti. Verði ekki komist hjá því að hittast skal gæta ítrustu varkárni og helst að bera andlitsgrímur. Þá hvet ég nemendur og starfsfólk eindregið til að fresta eða fella niður allt samkomuhald á Háskólasvæðinu.

Munum að sýna fyllstu ábyrgð hvert og eitt, hugum vandlega að smitvörnum og fylgjum reglum almannavarna til hins ítrasta. Verum heima ef minnstu einkenna verður vart. Í slíkum tilvikum skal leita til heilsugæslu og tilkynna um veikindi til næsta yfirmanns svo unnt sé að upplýsa nemendur og starfsfólk í viðkomandi byggingu,“ segir Jón Atli.


Tengdar fréttir

Smit staðfest í Hámu á Háskólatorgi

Upp hefur komið staðfest kórónuveirusmit í Hámu á Háskólatorgi í Háskóla Íslands. Starfsfólk Hámu á Háskólatorgi hefur verið sent í sóttkví og fer í sýnatöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×