Innlent

Kirkjuþing harmar að myndin hafi sært fólk

Sylvía Hall skrifar
Aldeilis Auglýsingastofa vann að herferðinni með Þjóðkirkjunni.
Aldeilis Auglýsingastofa vann að herferðinni með Þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan

Kirkjuþing hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að ætlunin með auglýsingu Þjóðkirkjunnar fyrir sunnudagsskólans hafi verið að undirstrika fjölbreytileikann. Kirkjan hafi ekki viljað særa fólk.

„Kirkjuþingi 2020 þykir afar miður að jesúmynd í auglýsingu um sunnudagaskóla kirkjunnar hafi sært fólk. Ætlunin var sú að undirstrika fjölbreytileikann en hvorki að særa fólk né ofbjóða,“ segir í stuttri yfirlýsingu sem Kirkjuþing sendi frá sér í kvöld.

Auglýsingin var fjarlægð af heimasíðu Kirkjunnar sem og Facebook-síðu hennar. Myndin prýðir þó enn strætisvagn í Reykjavík en Pétur G. Markan, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, segir Kirkjuna hafa fjarlægt myndina vegna ljótra ummæla við hana á samfélagsmiðlinum.

„Ummælin voru orðin mjög mörg og það er mjög gott að það sé umræða um Guðfræði og upplifun fólks en það voru komin ummæli þarna sem voru heldur svæsin og persónulega ljót. Það er ekki það sem við viljum. Við viljum að fólk geti tekist á um Guðfræði og Kristmyndir,“ sagði Pétur í samtali við fréttastofu fyrr í dag.

Séra Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogi, sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að myndbirtingin hefði verið mistök. Þarna væri verið að blanda viðkvæmum og eldfimum málum saman í markaðstátaki sem væri „skringilegur kokteill“ sem fáir væru tilbúnir til þess að drekka.

„Þetta voru mistök, engin spurning. Ég hefði viljað sjá í framhaldi af því yfirstjórn kirkjunnar ganga fram og tala til fólksins sem upplifði þetta sem mistök, eða vinna með þessa herferð öðruvísi,“ sagði Grétar Halldór um málið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×