Sport

Milljarðamæringurinn Mahomes magnaður í sigri meistaranna í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes stendur hér með öðrum leikmönnum Kansas City Chiefs fyrir leikinn.
Patrick Mahomes stendur hér með öðrum leikmönnum Kansas City Chiefs fyrir leikinn. AP/Charlie Riedel

Kansas City Chiefs hélt áfram þar sem frá var horfið í úrslitakeppninni í byrjun ársins þegar liðið vann sannfærandi sigur á Houston Texans, 34-20, í opnunarleik NFL-deildarinnar í nótt.

Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs, fékk risasamning í sumar og fær ekki alla þessa milljarða af ástæðulausu. Hann virtist hafa öll svörin á hreinu gegn Houston Texans vörninni í þessum leik og er án efa besti leikmaður NFL-deildarinnar í dag.

Patrick Mahomes gaf þrjár snertimarkssendingar og stýrði sóknarleik Kansas City Chiefs liðsins af öryggi þrátt fyrir að gestirnir frá Texas hafi verið að reyna að rugla hann í ríminu með breyttum varnarleik.

Travis Kelce, Sammy Watkins og Tyreek Hill skoruðu allir snertimark í leiknum og nýliðinn Clyde Edwards-Helaire stimplaði sig inn með stórleik. Edwards-Helaire hljóp alls 138 jarda og skoraði eitt snertimark í sínum fyrsta NFL-leik.

Sautján þúsund áhorfendur fengu að mæta á leikinn sem setti vissulega sinn svip á hann. Þeir voru kannski á víð og dreif um stúkuna en létu heyra vel í sér.

„Ég er mjög stoltur af leikmönnunum okkar en ég líka stoltur af stuðningsmönnunum okkar. Þeir mættu og þeir létu heyra í sér,“ sagði Andy Reid, þjálfari Kansas City Chiefs.

Deshaun Watson er líka búinn að fá nýjan milljarðasamning en féll enn á ný í skuggann af Patrick Mahomes. Watson átti eina snertimarkssendingu og skoraði líka sjálfur snertimark en fyrir utan fyrsta leikhlutann sem Houston Texans vann 7-0 þá var leikurinn í höndum Mahomes og félaga.

Kansas City Chiefs vann níu síðustu leiki sína á síðasta tímabili og það var ekkert í þessum leik sem bendir til þess að sú sigurganga sér að fara að enda á næstunni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×