Innlent

Fengu svör frá Sjúkratryggingum en engin gögn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Á vefsvæði Krabbameinsfélagsins kemur fram að félaginu hafi rétt fyrir hádegi í dag borist svar frá Sjúkratryggingum við erindi félagsins um afhendingu gagna. Engin gögn hafi þó borist með svarinu sem hafi getað stutt við ummælin sem voru látin falla í Kastljósviðtali af hálfu fulltrúa Sjúkratrygginga þess efnis að gæðakerfi Leitarstöðvarinnar uppfyllti ekki viðmið Evróputilskipana.

Sjúkratryggingar hafi óskað eftir staðfestingu frá Krabbameinsfélaginu og Leitarstöðinni á því að kröfur til starfseminnar séu uppfylltar fyrir lok dags og verður því erindi svarað í dag.

Krabbameinsfélagið segist í samtali við fréttastofu standa við fyrri fullyrðingar um að loka Leitarstöðinni umsvifalaust ef gögn frá Sjúkratryggingum Íslands gefa til kynna að gæðakerfi stöðvarinnar uppfylli ekki viðmið Evróputilskipana.

Í yfirlýsingu sinni fór Krabbameinsfélagið fram á það við Sjúkratryggingar að gögnin yrðu afhent fyrir hádegi í dag í ljósi þess að starfsfólk Leitarstöðvarinnar treysti sér ekki til að sinna störfum sínum vegna ummælanna, að sögn félagsins.

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og fékkst ekki til að segja af eða á með það hvort umbeðin gögn hafi verið afhent.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að Krabbameinsfélagið hefði ekki fengið neinar athugasemdir frá Sjúkratryggingum áður.

„Margsinnis er búið að endurnýja samningana og svona gagnrýni hefur ekki komið fram. Þegar það kemur upp einhver umræða um að mögulega búi sjúkratryggingar eða heilbrigðisyfirvöld yfir einhverjum upplýsingum sem segi það að félagið sé ekki fært um að sinna þjónustunni þá auðvitað eru það svo alvarlegar upplýsingar að okkur er væntanlega ekki fært að sinna þjónustunni áfram. En ég segi það bara hreint út að ég get ekki ímyndað mér að þessar upplýsingar séu til á sama tíma og verið er að óska eftir því að félagið sinni þjónustunni áfram út árið 2020.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.