Innlent

Munu svara Krabba­meins­fé­laginu en Land­læknir nú í for­gangi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Vísir/baldur

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) segir að nú sé í forgangi að svara óskum Landlæknis um gögn í máli Krabbameinsfélagsins. Erindi félagsins sjálfs verði þó að sjálfsögðu svarað.

Krabbameinsfélag Íslands hefur óskað eftir því við SÍ að afhent verði gögn sem styðja ummæli læknisins Tryggva Björns Stefánssonar, þar sem því var haldið fram að félagið stæðist ekki ákveðnar gæðakröfur. Krabbameinsfélagið segir í yfirlýsingu í dag að leggi SÍ fram slík gögn verði ekki hjá því komist að loka starfsemi Leitarstöðvarinnar umsvifalaust. Gögnin hafi þó ekki borist félaginu þrátt fyrir óskir þar um.

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands segir í samtali við Vísi að formleg beiðni Krabbameinsfélagsins um gögn hafi borist Sjúkratryggingum seint á laugardag og beiðnin svo ítrekuð seint í dag, sunnudag.

„Þessum erindum verður að sjálfsögðu svarað en eðlilega setjum við það í forgang að svara óskum Landlæknis um gögn,“ segir María. SÍ hafi unnið að því alla helgina að taka saman þau gögn málsins sem óskað hefur verið eftir.

Fram kemur í tilkynningu Krabbameinsfélagsins að geti SÍ ekki afhent gögn sem ummæli Tryggva byggjast á líti félagið svo á að þau séu ekki til og að „ummæli fulltrúa Sjúkratrygginga og starfsemi félagsins séu staðlausir stafir“.

Innt eftir því hvort umrædd gögn séu til segir María að SÍ sé að taka saman þau gögn sem málið varðar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×