Innlent

Á annan tug gæti þurft á gjörgæslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðaþjónustu hjá Landspítalanum.
Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðaþjónustu hjá Landspítalanum. Vísir/Egill

Fyrstu niðurstöður skimunar Íslenskrar erfðagreiningar vegna kórónuveirunnar þýða að allt að 170 manns gætu þurft að leggjast inn á gjörgæslu á Íslandi, að mati yfirlæknis bráðalækninga Landspítalans. Jafnvel þó að hlutfall smitaðra sé tífalt lægra gæti á annan tug einstaklinga þurft á gjörgæslu þegar við upphaf faraldursins.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tilkynnti í dag, að tæplega 1% þeirra sem komu til skimunar vegna kórónuveirunnar hafi greinst smitaðir samkvæmt fyrstu niðurstöðum fyrirtækisins á sýnum úr um 700 einstaklingum. Um helmingur þeirra hafi verið einkennalaus.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga Landspítalans, leggur út af þeim tölum og setur í samhengi við faraldsfræðilegar upplýsingar um nýja afbrigði kórónuveirunnar sem veldu Covid-19-sjúkdómnum í færslu sem hann skrifar á Facebook-síðu sína í dag.

Miðað við að 1% þjóðarinnar sé smitað geri það 3.400 manns. Um 15% sem smitast af veirunni veikjast alvarlega og 5% hafa þurft á gjörgæslu. Það þýði að 510 manns gætu þurft innlögn á Íslandi og 170 þurfi að leggjast inn á gjörgæslu.

Hann telur þó hlutfallið líklegra hærra þar sem einkennalausir einstaklingar hafi ekki verið skimaðir áður. Álagið á heilbrigðiskerfið geti orðið gríðarlegar jafnvel þó að hlutfallið sé raunverulega mun lægra.

„En þó við segjum að þetta se tífalt of hátt hlutfall (10% þeirra sem eru i sóttkví reynast smitaðir) þá eru þetta samt 51 sem þarf innlög og 17 á gjörgæsludeild og faraldurinn er rétt að byrja!! Í guðanna bænum fylgið leiðbeiningum sóttvarnarlæknis,“ skrifar Jón Magnús.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×