Innlent

Tryggingafélög taka Covid inn í áhættumat sitt

Birgir Olgeirsson skrifar
Óvissuþættir vegna hugsanlegra langtímaáhrifa Covid hafa gert það að verkum að tryggingafélög fresta umsóknum um tryggingar ef viðkomandi hefur verið útsettur fyrir sjúkdómnum eða veikst af honum. 
Óvissuþættir vegna hugsanlegra langtímaáhrifa Covid hafa gert það að verkum að tryggingafélög fresta umsóknum um tryggingar ef viðkomandi hefur verið útsettur fyrir sjúkdómnum eða veikst af honum.  Vísir/Vilhelm

Tryggingafélög hafa tekið Covid inn í áhættumat sitt vegna óvissuþátta um hugsanleg langtímaáhrif sjúkdómsins.

Ef einhver hyggst fá sér líf- eða sjúkdómatryggingu er viðkomandi nú spurður út í reynslu hans af Covid. Á þetta við tryggingafélög á borð við VÍS, TM, Sjóvá og Vörð.

„Ef þú hefur verið sóttkví eða veikst er frestun á umsókninni í fjórar vikur frá því þú ert orðinn einkennalaus. Ef þú lagst inn á spítala vegna þessa er frestun á umsökninni í sex mánuði frá því þú ert orðinn einkennalaus,“ segir Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri vátryggingasviðs Varðar. Hann tekur fram að ekki sé um höfnun að ræða.

„Þetta byggir á óvissu varðandi afleiðingar af þessum sjúkdómi.“

Að færa Covid í áhættumat líftrygginga er fengið frá erlendum líftryggingafélögum.

„Menn eru bara að afla upplýsinga eins og gert er með ýmsa aðra sjúkdóma, jafnvel flensu. Það er líka spurt í það. Ef þú hefur lagst inn á spítala vegna flensu getur það haft áhrif,“ segir Sigurður Óli.

Formaður Neytendasamtakanna segir skiljanlegt að tryggingafélögin verji sig fyrir sjúkdómi sem hefur óþekktar afleðingar. Forsendurnar þurfi þó að vera á hreinu.

„Ef við fáum til dæmis gubbupest og missum af ferðalagi eða þurfum að stytta það, þá er það tryggt en mögulega þegar við fáum hita vegna Covid. Þá ríður á að við vitum og skiljum skilmálana þegar við skrifum undir þá og kaupum tryggingar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×